Viðskipti innlent

Erlendir fjárfestar eiga rúmlega fimmtung af skráðum bréfum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hlutafjáreign erlendra fjárfesta í Kauphöllinni fer hlutfallslega hækkandi.
Hlutafjáreign erlendra fjárfesta í Kauphöllinni fer hlutfallslega hækkandi. Vísir/Daníel
Bein hlutabréfaeign erlendra fjárfesta í skráðum félögum hér á landi nam um 216 milljörðum króna, eða rúmlega fimmtungi af heildarmarkaðsvirði fyrirtækja í Kauphöllinni, í byrjun mánaðarins. Hækkaði hlutfallið um þrjú prósentustig í sumar og fór úr 18 prósentum í 21 prósent, að því er fram kemur í gögnum sem Kauphöllin tók saman fyrir Fréttablaðið.

Á sama tíma fór hlutafjáreign verðbréfa- og fjárfestingarsjóða hlutfallslega lækkandi. Slíkir sjóðir áttu um 7,8 prósent af markaðsvirði skráðra hlutabréfa í september, samanlagt um 80,3 milljarða króna, borið saman við 9,8 prósent í maí síðastliðnum. Dróst hlutdeild sjóðanna þannig saman um rúmlega fimmtung á þremur mánuðum. Hefur hún ekki verið lægri í fimm ár, en mest nam hún 12 prósentum árið 2015.

Bein hlutabréfaeign íslenskra heimila í skráðum félögum breyttist lítið í sumar og nemur enn um fjórum prósentum af heildarmarkaðsvirði félaganna eða sem nemur 41 milljarði króna. Eins og Fréttablaðið greindi frá í júní hefur hlutfallið ekki verið lægra í að minnsta kosti fimmtán ár, en á árunum fyrir fall fjármálakerfisins átti almenningur að jafnaði á bilinu samanlagt um 12 til 17 prósent af markaðsvirði skráðra hlutabréfa.

Eins og áður sagði hefur hlutafjáreign erlendra fjárfesta farið hlutfallslega hækkandi undanfarna mánuði og eiga þeir orðið meira en fimmtung af skráðum bréfum. Hlutfallið var hvað hæst árið 2007 eða tæplega 39 prósent, samkvæmt upplýsingum Kauphallarinnar.

Íslenskir lífeyrissjóðir áttu í september 39 prósent allra skráðra hlutabréfa í Kauphöllinni og hefur hlutfallið staðið nokkuð í stað undan­farin tvö ár. Sem kunnugt er jókst hlutdeild lífeyrissjóðanna verulega á árunum eftir bankaáfallið haustið 2008 en sem dæmi var hlutabréfaeign sjóðanna um 8,5 prósent af öllum skráðum bréfum árið 2009. 

Hlutabréfaeign einkafjárfesta í gegnum eignarhaldsfélög nemur rúmlega 19 prósentum af markaðsvirði skráðra fyrirtækja og hefur lítillega dregist saman undanfarna mánuði. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×