Innlent

Talin hafa fengið reykeitrun þegar eldur kviknaði í Breiðholti

Kjartan Kjartansson skrifar
Miklar skemmdir urðu á íbúðinni af völdum reyksins.
Miklar skemmdir urðu á íbúðinni af völdum reyksins. Jóhann K. Jóhannsson
Sjö manns voru í íbúð í Depluhólum í Breiðholti þegar eldur kom þar upp á tólfta tímanum. Töluverður reykur myndaðist og var fólkið flutt til skoðunar á slysadeild. Fjórir eru með ætlaða reykeitrun.

Samkvæmt upplýsingum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu kom eldurinn upp á jarðhæð tvíbýlishúss við Depluhóla í Breiðholti en tilkynnt var um hann kl. 11:23.

Töluverður viðbúnaður var vegna eldsins og fóru slökkviliðsmenn af tveimur stöðvum og þrír sjúkrabílar á staðinn. Eldurinn virðist hafa kviknað í herbergi íbúðarinnar nærri kommóðu. 

Slökkviliðsmenn af tveimur stöðvum voru fljótir að ráða niðurlögum eldsins en lengri tíma tók að reykræsta íbúðina.Jóhann K. Jóhannsson
Þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn var töluverður eldur í kommóðunni og mikill reykur í íbúðinni. Fólkið hafði allt komist út úr henni en það var flutt á slysadeild til skoðunar og aðhlynningar.

Skamman tíma tók að slökkva eldinn en enn er verið að reykræsta íbúðina. Töluverðar skemmdir eru taldar hafa orðið af völdum reyksins.

Ekki er vitað um upptök eldsins er mögulegt er talið að kerti eða skreyting hafi komið við sögu.

Uppfært 13:40 Fullyrðing um að enginn reykskynjari hafi verið í íbúðinni fjarlægð. Fréttamaður á staðnum hafði þær upplýsingar frá aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu en þær virðast hafa verið á misskilningi byggðar. Samkvæmt upplýsingum slökkviliðsins nú var reykskynjari í íbúðinni og var það hann sem gerði íbúunum viðvart um eldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×