Innlent

Dularfull hettuklædd vera á ferð í Moggahöllinni

Jakob Bjarnar skrifar
Skuggabaldurinn sem hafði á brott með sér þrjár tölvur virðist hafa verið sérlega útsmoginn og sá hann við öryggiskerfi hússins.
Skuggabaldurinn sem hafði á brott með sér þrjár tölvur virðist hafa verið sérlega útsmoginn og sá hann við öryggiskerfi hússins.
Innbrotsþjófur nokkur, sannkallaður skuggabaldur, braust inn á ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins í Hádegismóum. Hann hafði á brott með sér tölvur og einhverja persónulega muni. Þrjár fartölvur og tvær flíkur hurfu, í það minnsta. Það vekur eftirtekt að öryggisbúnaður í húsakynnum blaðsins virkaði ekki.

Björn Thors, framkvæmdastjóri tæknideildar, hefur lýst atvikinu fyrir starfsmönnum Morgunblaðsins eins og það horfir við honum og ljóst að þjófurinn hefur verið útsmoginn með afbrigðum.

Atvikið átti sér stað aðfararnótt fimmtudags fyrir viku. „Þrátt fyrir öryggismyndavélar, aðgangskortakerfi og eftirlitsferðir hefur ekki tekist að finna þjófinn. Öryggismyndavélar sem hefðu átt að ná mynd af atvikinu virkuðu ekki vegna þess að slökkt hafði verið á sjálfvikum ljósabúnaði á tveim svæðum,“ segir í tölvupósti Björns.

„Einu myndirnar sem við teljum að sýni þjófinn er úr öryggismyndavél í anddyri og sýnir í endurspeglun frá gleri hettuklædda veru með (fartölvu)tösku í hægra horni og síðan sést viðkomandi ganga inn í móttökustúkuna.“

Sú mynd er tekinn klukkan 23:45. Ekki eru sjáanleg merki um innbrot en hugsanlega hefur viðkomandi komist inn um opinn glugga á austurhlið hússins. „Ekki er útilokað að viðkomandi hafi haft aðgangskort en því miður var slökkt á skráningunni í aðgangskortakerfinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×