Enski boltinn

Mata hafnaði gylliboði frá Kína

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Juan Mata hefur skorað eitt mark í sjö deildarleikjum fyrir United á tímabilinu.
Juan Mata hefur skorað eitt mark í sjö deildarleikjum fyrir United á tímabilinu. vísir/getty
Juan Mata hafnaði gylliboði frá liði í kínversku ofurdeildinni og ákvað að halda kyrru fyrir hjá Manchester United.

Daily Mail greinir frá því að ónefnt lið frá Kína hafi boðið Mata samning sem hefði fært honum 375.000 pund í vikulaun, eftir skatta.

Mata á aðeins ár eftir af samningi sínum við United. Spánverjinn segir að sér líði vel í Manchester og vilji framlengja samning sinn við United.

„Mér líður vel í Manchester. Ég hef verið hérna í næstum því fjögur ár og elska fólkið hérna. Borgin er mjög fín og það er mikið um að vera,“ sagði Mata.

United keypti Mata frá Chelsea fyrir 37,1 milljón punda í ársbyrjun 2014. Hann hefur leikið 155 leiki fyrir United og skorað 37 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×