Leikarinn Terry Crews sagði frá því á Twitter í kvöld að framkvæmdastjóri í Hollywood hafi áreitt sig kynferðislega. Framkvæmdastjórinn greip í kynfæri leikarans á viðburði í Hollywood en atvikið var ekki kært. Ástæða þess að Crews segir frá þessu opinberlega núna er að hann hafði fengið áfallastreyturöskun eftir fréttirnar um kynferðisofbeldi Harvey Weinstein.
„Ég og eiginkona mín vorum á viðburði í Hollywood á síðasta ári og hátt settur Hollywood framkvæmdastjóri kom til mín og káfaði á kynfærum mínum utanklæða. Ég stökk aftur á bak og spurði Hvað ertu að gera? Konan mín sá þetta allt saman og við horfðum á hann eins og hann væri brjálaður. Hann glotti bara eins og fífl.“
Crews segist hafa hætt við að ráðast á manninn, sem hann greinir ekki á nafn, til að forðast fangelsi og fyrirsagnir í fjölmiðlum. Hjónin yfirgáfu viðburðinn strax en daginn eftir sagði Crews öllum sem hann þekkti sem voru að vinna með framkvæmdastjóranum frá þessu.
„Hann hringdi í mig daginn eftir og baðst afsökunar en útskýrði aldrei af hverju hann gerði það sem hann gerði.“
Viðurkennir Crews að völd og áhrif framkvæmdastjórans hafi spilað hlutverk í ákvarðanatöku hans um að fara ekki með málið lengra. „Ég lét kyrrt liggja og ég skil af hverju svo margar konur sem verða fyrir þessu láta þetta kyrrt liggja.“ Vonar Crews að ákvörðun sín um að stíga fram og segja frá kynferðisofbeldinu muni hindra ofbeldismann og hvetja einhvern sem upplifir vonleysi.