Fótbolti

Eiður Smári í heimsókn hjá PSV: Rómantískur staður fyrir mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen sem leikmaður PSV.
Eiður Smári Guðjohnsen sem leikmaður PSV. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen hóf atvinnumannaferil sinn hjá PSV Eindhoven í Hollandi og hann er nú í heimsókn hjá gamla félaginu sínu vegna gerð heimildarmyndar um ferilinn.

PSV segir frá heimsókn Eiðs Smára á Twitter-síðu sinni og þar má einnig finna viðtal við markahæsta landsliðsmann Íslands frá upphafi.

Eiður Smári talar hollenskuna ennþá reiprennandi en hann segir meðal annars í þessu viðtali að Eindhoven sé rómantískur staður fyrir sig.

Myndabandið má sjá hér fyrir neðan en þar sést Eiður Smári meðal annars hitta Phillip Cocu, þjálfara PSV-liðsins í dag. Eiður og Phillip Cocu léku saman hjá PSV á sínum tíma.

Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, var einnig með þeim Eiði og Cocu.



Eiður Smári Guðjohnsen kom til PSV árið 1995 þá aðeins sextán ára gamall og var í herbúðum félagsins til ársins 1998.  Eiður Smári skoraði 3 mörk í 13 deildarleikjum fyrir félagið þar á meðal eina markið í 1-0 sigri á NEC Nijmegen 20. apríl 1996.

Eiður fótbrotnaði í leik með unglingalandsliði Íslands 7. maí 1996, rúmur tveimur vikum síðar, eða þegar hann var farinn að stimpla sig inn í aðalliðið hjá PSV.

Þessi mjög svo alvarlegu ökklameiðsli urðu til þess að Eiður yfirgaf á endanum PSV og fór aftur heim til Íslands. Þar spilaði hann í hálft ár með KR og endurræsti síðan atvinnumannaferil sinn hjá Bolton Wanderers frá 1998 til 2000.

Chelsea keypti hann síðan sumarið 2000 þar sem Eiður Smári spilaði sín bestu ár og varð tvisvar sinnum Englandsmeistari.

Þegar Eiður Smári var að stíga sín fyrstu sport hjá PSV Eindhoven þá var þar líka ungur Brasilíumaður að nafni Ronaldo sem lék með félaginu frá 1994 til 1996. Meiðslin höfðu mikil áhrif á fyrstu árin hjá Eiði en Ronaldo fór til Barcelona 1996.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×