Innlent

Þyrfti margfalt fleiri tollverði til að geta sinnt eftirliti með öllum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Það er talið að brot mannanna þriggja hafi staðið yfir um árabil.
Það er talið að brot mannanna þriggja hafi staðið yfir um árabil. vísir/ANTON BRINK
Yfirtollvörður á Keflavíkurflugvelli segir að fjölga þurfi tollvörðum til muna ef þeir eigi að sinna eftirliti með öllum starfsmönnum flugvallarins.

Í gær var sagt frá því að lögreglan á Suðurnesjum hefði fyrr í mánuðinum handtekið þrjá karlmenn vegna stórfellds þjófnaðar á tollfrjálsum varningi frá flugþjónustufyrirtæki á flugvellinum. Tveir mannanna störfuðu á flugvellinum en sá þriðji sá um að koma varningnum í verð. Höfðu þeir meðal annars stolið miklu af kjöti en talið er að um hundruð kílógramma, hið allra minnsta, sé að ræða.

„Það er alveg ljóst að starfsmönnum okkar hefur ekki fjölgað í samræmi við aukna umferð og aukinn fjölda starfsfólks á vellinum. Á hverjum degi eru um 30 þúsund manns sem fara um völlinn og að auki eru sex þúsund manns sem starfa á vellinum,“ segir Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður á Keflavíkurflugvelli.

Að sögn Kára er umfangsmikið eftirlit með starfsfólki þegar það kemur inn og fer út af svæðinu en ómögulegt sé að vera með 100 prósent eftirlit með öllum, alltaf. Sem stendur séu tollverðir um fimmtíu talsins en milli tíu og fimmtán eru á vakt hverju sinni.

„Ef við ættum ávallt að hafa algjört eftirlit með öllum þá þyrfti að fjölga okkur tollvörðum um hundruð prósenta,“ segir Kári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×