Innlent

Sendu Þjóðskrá til baka í þriðja sinn

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Margir hillumetrar af skjölum eru í hirslum Þjóðskrár.
Margir hillumetrar af skjölum eru í hirslum Þjóðskrár. vísir/vilhelm
Þjóðskrá skal taka fasteignamat eignar í Logafold í Reykjavík, fyrir árin 2009-2013, til endurskoðunar. Þetta er niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar en þetta er í þriðja skipti sem ákvörðun Þjóðskrár varðandi eignina er felld úr gildi.

Forsaga málsins er að árið 2014 óskuðu eigendur eignarinnar eftir endurskoðun á fasteignamatinu til lækkunar. Töldu þau mat Þjóðskrár vera tugum milljóna of hátt og að það skýrðist af því að flatarmál kjallara, sem væri óíbúðarhæfur og ekkert nema geymsla, væri talið með í heildarfermetrafjölda hússins.

Þjóðskrá hafnaði beiðni eigenda um endurmat. Sú niðurstaða var kærð til yfirfasteignamatsnefndar sem felldi árið 2015 ákvörðunina úr gildi. Þjóðskrá leit á framkomin gögn og taldi ekki rétt að breyta mati eignarinnar. Sú niðurstaða var á ný kærð til yfirfasteignamatsnefndar sem aftur felldi ákvörðun Þjóðskrár úr gildi. Þetta var árið 2016.

Í þriðja sinn leit Þjóðskrá á gögn málsins og komst að því þriðja sinni að ekki væru ástæður til að breyta fasteignamati eignarinnar. Á ný var málið kært til yfirfasteignamatsnefndar sem komst að þeirri niðurstöðu, þriðja sinni, að framkvæmd Þjóðskrár væri ábótavant. Þarf Þjóðskrá því að taka málið til meðferðar fjórða sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×