Fótbolti

Zlatan: Sænska liðið ekki jafn sterkt eftir að ég hætti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic er markahæsti leikmaður í sögu sænska landsliðsins.
Zlatan Ibrahimovic er markahæsti leikmaður í sögu sænska landsliðsins. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic segir að sænska fótboltalandsliðið sé ekki jafn gott eftir að hann lagði landsliðsskóna á hilluna.

Zlatan hætti í landsliðinu eftir EM 2016. Síðan þá hefur Svíum gengið vel. Þeir lentu í 2. sæti síns riðils í undankeppni HM og mæta Ítölum í umspili um sæti á lokakeppninni í Rússlandi.

„Svíar eru pressulausir þegar þeir spila í dag. Þegar ég var að spila bjuggust allir við að við myndum vinna EM og HM. Pressan kom bæði frá sjálfum mér og utan frá. Ég þreifst á því,“ sagði Zlatan.

„Í dag, hvort sem Svíar vinna eða tapa, er þetta ekki eins og ég var að spila. Ef ég hlusta á mitt eigið egó verð ég að segja að við vorum betri þegar ég var að spila. Þeir eru ekki jafn góðir án mín.“

Zlatan viðurkennir þó að liðsheildin í sænska landsliðinu sé sterkari en þegar hans naut við.

„Án Ibrahimovic eru þeir kannski meira lið en eins og ég sagði er munur á að spila undir pressu og án pressu. Núna byrjuðu allir á núllpunkti og áttu möguleika á að sanna sig,“ sagði Zlatan.

Fyrri leikur Svíþjóðar og Ítalíu fer fram á Vinavelli í Stokkhólmi á morgun. Leikurinn hefst klukkan 19:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×