Sport

Tímabilið búið hjá efnilegasta leikmanni NFL-deildarinnar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Watson í leik með Houston.
Watson í leik með Houston. vísir/getty
Hinn stórkostlegi nýliðaleikstjórnandi Houston Texans í NFL-deildinni, Deshaun Watson, meiddist illa á æfingu hjá Texans í gær og spilar ekki meira í vetur.

Hann varð ekki fyrir neinni slæmri tæklingu. Hnéð bara gaf sig er hann hrasaði og hann þarf að fara í aðgerð í dag. Hrikalega svekkjandi fyrir nýliðann sem hefur verið með bestu leikmönnum deildarinnar síðan hann fékk tækifærið.

Enginn nýliðaleikstjórnandi hefur byrjað sinn feril eins vel á síðustu tíu árum. Hann er þegar búinn að kasta fyrir 19 snertimörkum í deildinni sem er mest allra. Frábær árangur sérstaklega þar sem hann spilaði ekki fyrstu leikina.

Hann er þess utan með flesta hlaupametra allra leikstjórnanda í deildinni. Hann er nýbúinn að kasta yfir 400 jarda og fyrir fjórum snertimörkum í leik gegn frábæru varnarliði Seattle. Þá sáu allir endanlega að hann er afar sérstakur. Þökk sé honum er Houston stigahæsta liðið í deildinni en var fjórða lélegasta sóknarliðið á síðustu leiktíð.

Tom Savage mun væntanlega taka við leikstjórnandastöðunni hjá liðinu sem er þess utan búið að semja við Matt McGloin til þess að styðja við bakið á Watson.

Íþróttaheimurinn fann virkilega til með Watson í gær sem fékk batakveðjur frá flestum af stærstu íþróttastjörnum Bandaríkjanna.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×