Sport

Nýtt Cool Runnings ævintýri í uppsiglingu á vetrarólympíuleikunum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nígería mætir í snjóinn.
Nígería mætir í snjóinn. mynd/nígería
Handritshöfundur kvikmyndarinnar Cool Runnings, sem fjallar um sanna sögu jamaíska bobsleðaliðsins á vetrarólympíuleikunum í Calgary í Kanada árið 1988, er væntanlega byrjaður að ydda blýantinn því annað eins ævintýri gæti verið í uppsiglingu.

Kvennalið Nígeríu hefur nefnilega tryggt sér keppnisrétt á þriggja manna bobsleða á vetrarólympíuleikunum í PyeongChang sem fara fram í byrjun næsta árs en aldrei áður hefur svo mikið sem einn keppandi frá Nígeríu keppt á vetrarólympíuleikunum.

Eins og með jamaíska liðið fyrir 29 árum síðan er það byggt upp af fyrrverandi spretthlaupurum en sú sem stýrir vagninum heitir Sean Adigun. Hún er fyrrverandi Afríkumeistari í 100 metra grindahlaupi og keppti fyrir Nígeríu í þeirri grein á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012. Hún byrjaði að keppa á Bobsleða fyrir þremur árum.

Jamaíska bobsleðaliðið velti sleðanum en labbaði með hann í mark sem er ein af sögufrægustu stundum Ólympíuleikanna.vísir/getty
Ngozi Onwumere, önnur tveggja sem sér um bremsurnar, var í sigurliði Nígeríu á Afríkuleikunum í 4x100 metra hlaupi en með henni í liði var undrabarnið Blessing Okagbare. Hin bremsukonan heitir Akuoma Omeoga en hún er að keppa fyir Nígeríu í fyrsta sinn.

Þremenningarnir tryggðu sér keppnisrétt í Suður-Kóreu í gær með því að klára fimmtu ferðina en lið þurfa að komast klakklaust í gegnum fimm ferðir til að fá að keppa á Ólympíuleikunum. Þær kláruðu eina keppni í Utah, eina í Whistler og þær síðustu í Calgary á þriðjudaginn og aftur í gær.

„Þetta er risastórt skref fyrir íþróttir í Nígeríu,“ sagði Adigun við KweséESPN. „Það er ekkert sem gerir mig stoltari en að vita að ég get skapað tækifæri fyrir aðra að taka þátt í vetraríþróttum í Nígeríu.“

Hér að neðan má sjá stutt myndband frá deginum þar sem þær nígerísku kláruðu fimmtu og síðustu ferðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×