Viðskipti innlent

Dómstóll EFTA staðfestir ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Samkvæmt íslenskri löggjöf eru innflutningstakmarkanir á fersku kjöti.
Samkvæmt íslenskri löggjöf eru innflutningstakmarkanir á fersku kjöti. Vísir/Heiða
EFTA-dómstóllinn birti í dag niðurstöðu sína þar sem staðfest er ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ).

Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun til eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í kjölfar innleiðingar stjórnvalda hér á landi á reglugerð Evrópusambandsins um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

Samkvæmt íslenskri löggjöf eru innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, hvort sem um ræðir svína-, lamba-, nauta-, geita- eða alifuglakjöt.

Samtök verslunar og þjónustu töldu þetta bann ganga gegn ákvæðum EES-samningsins um frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi íslenskra stjórnvalda feli í sér landamæraeftirlit sem ekki sé í samræmi við löggjöf EES-samningsins.

Þessar ábendingar hafa því verið staðfestar af EFTA-dómstólnum, en þær eru einnig í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Íslenska ríkið hefur áfrýjað þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar en vænta má dóms í því máli vorið 2018.


Tengdar fréttir

Innflutningsbann á fersku kjöti fer fyrir EFTA-dómstólinn

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ákveðið að vísa tveimur málum til EFTA-dómstólsins er varða innflutningstakmarkanir á ferskum kjötvörum og vörum úr eggjum og mjólk frá öðrum EES-ríkjum til Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×