Fótbolti

Íslenska landsliðið fær allt frítt í Indónesíuferðinni sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari. Vísir/Getty
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er á leiðinni til Indónesíu í janúar og ætla heimamenn að borga undir íslenska liðið í ferðinni.

Ferðin hinum megin á hnöttinn mun því ekki kosta Knattspyrnusamband Íslands krónu.

Ísland mun ekki hafa aðgengi að mörgum af sínum sterkustu leikmönnum því engir alþjóðlegir leikdagar eru í janúar. Liðið mun því verða skipað leikmönnum frá Íslandi og Norðurlöndum.

„Menn spyrja sig af hverju við erum að fara svona langt í burtu. Það er eftirsóknarvert að spila til Íslands og þetta er boðsferð svo allt er frítt; Flug, gisting, matur og æfingaaðstaða. Við þiggjum það með þökkum," segir Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari í viðtali við Fótbolta.net.

Íslenska landsliðið fór til Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í janúar 2016 en liðið var þá á leiðinni á Evrópumótið í Frakklandi um sumarið.

„Þetta er hlýtt land og það er fínt að vera með óreyndari hóp á svona stað þar sem við getum eytt góðum tíma í æfingar, spjall og kannski á aðeins rólegra tempói. Á margan hátt er þetta frábær ferð þó ferðalagið sé langt,“ sagði Heimir ennfremur í viðtalinu.

Íslenska landsliðið mun spila í ferðinni tvo vináttulandsleik við 23 ára landslið Indónesíu sem er að undirbúa sig fyrir Asíuleikana næsta sumar.

Það má lesa meira af viðtalinu við Heimi með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×