Enski boltinn

Messan ræðir leik Manchester United: Ég elska að sjá svona hluti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku, framherji Manchester United, var í sviðsljósinu í leik Manchester United og Brighton í ensku úrvalsdeildinni um helgina og strákarnir í Messunni fjölluðu um Belgann og þátttöku hans í sigri síns liðs.

Ríkharð Óskar Guðnason sá um Messuna í gær og gestir hans að þessu sinni voru þeir Hjörvar Hafliðason og Bjarni Guðjónsson.

Romelu Lukaku vann hornspyrnuna sem skilaði sigurmarki Manchester United en þeir Hjörvar og Bjarni voru ekki sammála um hvort að hann hefði átt að fá hana.

„Ég held að þetta hafi aldrei verið hornspyrna,“ sagði Hjörvar.

„Þetta er bara hundrað prósent horn,“ sagði Bjarni en Ríkharð tók undir með Hjörvari og þeir skoðuðu síðan atvikið betur.

„Ég hrindi í hann og hann viðurkenndi það að hann hefði fengið boltann í sig,“ sagði Bjarni síðan í léttum tón.

Þeir félagar ræddu líka af hverju Ashley Young fékk ekki skráð á sig sigurmarkið sem og umdeilt atvik með Lukaku þar sem hann reynir að sparka í mótherja.

Lukaku fékk líka hrós fyrir vinnusemina undir lok leiksins.

„Lukaku bjó til aðdraganda marksins úr ekki neinu. Svo er leikurinn að fjara út hérna og Lukaku á lélega snertingu og virðist vera alveg búinn,“ segir Bjarni en bendir síðan á vinnusemi Belgans.

„Sjáið stóra karlinn. Ég elska að sjá svona hluti,“ sagði Bjarni en þá má sjá allt innslagið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×