Erlent

Rúmlega fimm þúsund ferðamenn komast ekki heim sökum eldgossins

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Mikinn reykjarmökk leggur frá eldfjallinu en stólparnir hafa náð allt að fjögurra kílómetra hæð.
Mikinn reykjarmökk leggur frá eldfjallinu en stólparnir hafa náð allt að fjögurra kílómetra hæð. Vísir/AFP
Rauð viðvörun hefur verið gefin út vegna eldgossins í Agung á eyjunni Balí í Indónesíu en slík viðvörun gefur til kynna að stórt eldgos sé yfirvofandi og að töluvert öskufall verði vegna þess. Um tuttugu og fjögur þúsund manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín og nokkur flugfélög hafa aflýst ferðum sínum af öryggisástæðum.

Eins og Vísir greindi frá í dag leggur mikinn reykjarmökk frá eldfjallinu en stólparnir hafa náð allt að fjögurra kílómetra hæð. Yfirvöld á Balí og Lombok eru byrjuð að dreifa rykgrímum til fólks á eyjunum.

Sjálfboðaliði setur rykgrímu á ungan dreng til að verja hann gegn ösku frá eldfjallinu.Vísir/AFP
Talsverður fjöldi ferðamanna kemst ekki heim sökum þessa en flugvelli á nágrannaeyjunni Lombok hefur einnig verið lokað. Minnst fjórtán flugum var aflýst í dag sem hafði áhrif á um fimm þúsund og fimm hundruð ferðamenn. Balí er vinsæll áfangastaður ferðamanna en gosið virðist ekki enn hafa áhrif á helstu ferðamannasvæði á Balí sem standa enn opin að stærstum hluta.

Um 140 þúsund manns var gert að flýja heimili sín í september síðastliðnum. Þá hafði eldvirkni í Agung aukist til muna en flestir sneru þó aftur til síns heima í lok mánaðarins. Eldfjallið Agung gaus síðast árið 1963. Yfir þúsund manns fórust í gosinu.

Hér að neðan má sjá myndband af reykjarmökknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×