Erlent

Auglýsendur flýja Youtube vegna myndbanda af fáklæddum börnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Forsvarsmenn Youtube segjast vinna að því að bæta úr því að auglýsingar hafi birst með óviðeigandi myndböndum af börnum á síðunni.
Forsvarsmenn Youtube segjast vinna að því að bæta úr því að auglýsingar hafi birst með óviðeigandi myndböndum af börnum á síðunni. Vísir/AFP
Fyrirtæki eins og Mondelez, Lidl, Mars og fleiri hafa dregið auglýsingar sínar á myndbandasíðunni Youtube til baka eftir að greint var frá því að þær birtust með myndböndum af fáklæddum börnum. Hundruð barnaníðinga skrifuðu athugasemdir við myndböndin.

Rannsókn breska blaðsins The Times sýndi að Youtube hafði leyft kynferðislegum myndum af börnum að birtast á síðunni þar sem auðvelt var að leita að þeim þrátt fyrir loforð um að fylgjast betur með efni af þessu tagi til að vernda börn.

„Það ættu ekki að birtast neinar auglýsingar með þessu efni og við erum að vinna að því að laga þetta fljótt,“ segir talsmaður Youtube.

Í frétt Reuters-fréttastofunnar kemur fram að sum myndböndin hafi verið með milljónir áhorfa. Svo virðist sem að börnin sjálf hafi birt myndböndin á síðunni.

Í yfirlýsingu frá sælgætisframleiðandandum Mars segir að fyrirtækið sé í áfalli og hrylli við því að auglýsingar þess hafi birst með efni af þessu tagi. Í kjölfarið dró það allar auglýsingar sina á Youtube og móðurfyrirtækinu Google til baka þar til fyrirtækin hafa gert viðeigandi ráðstafanir.

The Times sagði frá því að Youtube gerði ekki nóg til þess að leita að og fjarlægja óviðeigandi myndefni af börnum. Í staðinn reiði fyrirtækið sig á hugbúnaðaralgóriþma, utanaðkomandi samtök og lögreglu til að benda á það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×