Innlent

Tvær fimmtán ára stúlkur fundust meðvitundarlausar í miðbæ Reykjavíkur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Kolbeinn Tumi
Tvær fimmtán ára stúlkur voru fluttar á Landspítalann á áttunda tímanum í gærkvöldi eftir að hafa fundist meðvitundarlausar á tröppum í miðborginni. Voru þær lagðar inn á gjörgæsludeild en grunur leikur á að þær hafi tekið fíkniefnið MDMA. Mbl.is greinir frá.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir aðra stúlkuna vera að koma til. Hin sé í öndunarvél á gjörgæslu. Rannsókn á málinu sé að hefjast.

Vinsælt meðal ungs fólks

Neysla MDMA meðal ungmenna hefur verið töluverð undanfarin ár. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, sagði í samtali við fréttastofu fyrir tveimur árum að neysla þessi hefði aukist eftir hrun.

„Það datt alveg botninn úr neyslunni í hruninu en það hefur smá saman verið að sækja í sig veðrið neyslan á þessum efnum síðastliðin þrjú ár,“ segir Þórarinn. Á sama tíma hafi neysla á kókaíni og amfetamíni ekki aukist.

Þá segir hann ungt fólk aðallega nota efnið. „Þetta efni er oft notað í sambandi við skemmtanir hjá ungu fólki og það blandast svolítið kannabisneyslunni líka. Þetta er talsverð eftirspurn eftir þessu í sambandi við skemmtanalífið hjá ungu fólki.“

Fimm ung fallið frá

Dæmi eru um að ungir Íslendingar hafa látist úr neyslu MDMA. Árið 2014 kom fram í frétt Stöðvar 2 að dauðsföll fimm ungmenna mætti rekja til neyslu fíkniefnisins. Vakti dauðsfall Evu Maríu Þorvarðardóttur árið 2013 óhug en fjallað var um málið í fréttaskýringaþættinum Brestum árið 2014 og rætt við foreldra hennar.

Athygli vakti að Eva María var í gleðskap þegar hún féll frá. Enginn úr veislunni hefur haft samband við foreldra Evu Maríu til að upplýsa þau um hvað gekk á í gleðskapnum.

Í Fréttablaðinu í september var fjallað um fíkniefnaneyslu hér á landi. Þar kom fram að neysla MDMA hefði verið áberandi mikil mánuðinn á undan.

Uppfært klukkan 14:40

Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir í samtali við Vísi að stúlkurnar séu báðar komnar til meðvitundar. Litlu hafi mátt muna í gærkvöldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×