Erlent

Konur Saturday Night Live styðja Franken

Samúel Karl Ólason skrifar
Al Franken, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins.
Al Franken, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins. Vísir/Getty

Alls 36 konur sem störfuðu með þingmanninum Al Franken við gerð Saturday Night Live hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þær lýsa yfir stuðningi við hann. Þær segja hann hafa komið fram við þær af mikilli virðingu og að engin þeirra hafi upplifað óviðeigandi hegðun að nokkru leyti. Franken hefur verið sakaður um káfa á tveimur konum og kyssa aðra þeirra gegn vilja hennar.

Útvarpskonan Leeann Tweeden sakaði Franken um að grípa um brjóst hennar þegar hún var sofandi og kyssa hana gegn vilja hennar. Franken hefur beðist afsökunar og sagðist Tweeden samþykkja afsökunarbeiðnina.

Svo steig Lindsay Menz fram og sagði hann hafa gripið í rass hennar í myndatöku árið 2010. Þá var hann orðinn þingmaður.

Franken starfaði við SNL í 15 ár og þá bæði sem rithöfundur og leikari. Konurnar 36 segjast hafa starfað með honum á þeim tíma. Meðal þeirra, samkvæmt Frétt Entertainment Weekly eru Jane Curtain og Laraine Newman.

„Okkur finnst við þurfa að koma Al Franken til varnar. Við höfum allar notið þeirrar ánægju að starfa með honum í gegnum árinu í SNL. Það sem Al gerði var heimskulegt og kjánalegt og við teljum að það hafi verið rétt af honum að biðja Tweeden og almenning afsökunar.

Við þekkjum Al sem tryggan og trúan fjölskyldumann, yndislegan grínista og heiðarlegan opinberan starfsmann. Það er ástæða þess að við viljum taka fram að engin af okkur upplifði nokkurs konar óviðeigandi hegðun af hans hálfu. Við viljum taka fram að við kunnum að meta það að hann kom fram við okkur allar af mikilli virðingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×