Enski boltinn

Er þetta met sem ég á að vera stoltur af?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Peter Crouch, framherji Stoke City, setti met þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Brighton í gær.

Crouch kom inn á sem varamaður fyrir Xherdan Shaqiri á 73. mínútu. Framherjinn hávaxni er nú sá leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur oftast komið inn á sem varamaður.

Crouch hefur komið 143 sinnum inn á sem varamaður, einu sinni oftar en Shola Ameobi, fyrrverandi framherji Newcastle United.

Crouch tekur sjálfan sig mátulega alvarlega og það sást greinilega þegar hann skrifaði athugasemd við tíst Sky Sports. Hann spurði einfaldlega hvort hann ætti að vera stoltur af þessu meti og lét mynd af apa að halda fyrir augun fylgja með.

Crouch, sem er 36 ára gamall, hefur alls leikið 439 leiki í ensku úrvalsdeildinni og skorað 106 mörk. Hann skoraði 39 þessara marka með skalla sem er met í ensku úrvalsdeildinni.

Crouch hefur skorað þrjú mörk í átta leikjum með Stoke í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Í öllum leikjunum hefur hann komið inn á sem varamaður.


Tengdar fréttir

Sanngjarnt jafntefli í Brighton

Stoke tókst ekki að fara með þrjú stig af Amex vellinum í Brighton, frekar en nokkurt annað lið í ensku úrvalsdeildinni, að undanskildu toppliði Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×