Tengdasonur Donald Trump Bandaríkjaforseta, Jared Kushner, var yfirheyrður af starfsmönnum saksóknarans Robert Mueller sem rannsakar afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum á síðasta ári.
Þetta kemur fram í frétt New York Times sem vísar í ónafngreindan heimildarmann sem tengist rannsókninni.
Spurningar starfsmanna Mueller sneru fyrst og fremst að fundi Kushner, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafans Michael Flynn og rússneska sendiherrans Sergei Kisljak, áður en Trump tók við embætti forseta. Var þáttur Flynn sérstaklega til umræðu í yfirheyrslunum yfir Kushner sem stóðu í um einn og hálfan tíma.
Fleiri starfsmenn Hvíta hússins yfirheyrðir
Flynn var ráðgjafi Trump í kosningabaráttunni og var skipaður þjóðaröryggisráðgjafi þegar Trump tók við embætti. Flynn var sagt upp störfum tæpum mánuði síðar eftir að upp komst að hann sagði ósatt um samskipti sín við rússneskan sendiherra í aðdraganda valdaskiptanna.
Heimildarmaður New York Times segir að fjöldi starfsmanna Hvíta hússins hafa verið yfirheyrðir vegna Flynn að undanförnu.
Mueller fer fyrir rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI á afskiptum Rússa að bandarísku forsetakosningunum og mögulegu samráði þeirra við framboð Donald Trump. Mueller var settur yfir rannsóknina eftir að Trump rak James Comey úr starfi forstjóra FBI í maí.
Mueller getur í rannsókn sinni ákært hvern sem er í starfsliði Trump telji hann ástæðu til, þar á meðal Trump sjálfan. Sömuleiðis getur hann ákært menn fyrir önnur brot sem ekki tengjast samráði við Rússa en sem kunna að koma upp á yfirborðið við rannsókn málsins.
Starfsmenn Mueller yfirheyrðu Kushner

Tengdar fréttir

Dómsmálaráðherra Trump íhugar að láta rannsaka demókrata
Þrátt fyrir fullyrðingar um annað eftir kosningasigur Donalds Trump er dómsmálaráðuneyti hans að íhuga að láta rannsaka pólitíska andstæðinga forsetans.

Vísbendingar um að fyrrum bandamaður Trump vinni með rannsakendum
Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump er sagður hafa slitið tengslin við forsetann og gæti verið að vinna með Robert Mueller, sérstökum rannsakanda á Rússatengslum.

Þetta þarftu að vita um Rússarannsókn Mueller
Rannsóknin á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum í fyrra hefur aftur ratað í kastljós fjölmiðla eftir að fyrstu ákærurnar í rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins og alríkislögreglunnar voru birtar á mánudag.