Enski boltinn

Stjórnarformaður Liverpool getur ekki lofað því að Coutinho fari ekki í janúar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Philippe Coutinho skoraði þrennu á móti Spartak.
Philippe Coutinho skoraði þrennu á móti Spartak. Vísir/EPA
Liverpool getur ekki lofað stuðningsmönnum sínum því að Phillipe Coutinho verði enn þá leikmaður liðsins eftir að janúarglugginn verður opnaður í byrjun árs, samkvæmt stjórnarformanni félagsins, Peter Moore.

Coutinho var eftirsóttur af Barcelona í sumar og vildi ólmur komast til katalónska risans en Liverpool hafnaði hverju tilboðinu á fætur öðru.

Brassinn virðist vera búinn að jafna sig og rúmlega það en hann skoraði þrennu í 7-0 sigri á Spartak Moskvu í vikunni þegar að Liverpool vann sinn riðil á leiðinni í 16 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Moore getur ekki staðfest að Coutinho verði áfram hjá Liverpool þegar að nýtt ár rennur í garð en hann ræddi málefni Brasilíumannsins í viðtali við Sky Sports.

„Við gáfum út eina yfirlýsingu á síðasta ári. Í henni kom fram að leikmaðurinn væri ekki til sölu en þá yfirlýsingu gáfu eigendurnir út,“ segir Moore.

„Ég get bætt við það, að nú les maður hverja söguna á fætur annarri frá Spáni þar sem sagt er að Barcelona, eða eitthvað annað lið, ætli sér að kaupa Coutinho. Það sem ég sá, aftur á móti, í vikunni var leikmaður sem var ánægður að skora þrennu fyrir sitt lið fyrir framan 54.000 manns.“

„Hópurinn sem við erum með núna er sá sami og við förum inn í janúar með, en ég á ekki kristalskúlu þannig ég get ekki séð inn í framtíðina. Ég veit ekki hvað gerist í janúar,“ segir Peter Moore.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×