Viðskipti innlent

Guide to Iceland þriðja hraðast vaxandi tæknifyrirtæki Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Xiaochen Tian, framkvæmdarstýra Guide to Iceland, og Davíð Ólafur Ingimarsson, fjármálastjóri fyrirtækisins, tóku á móti verðlaunum í París í gærkvöld.
Xiaochen Tian, framkvæmdarstýra Guide to Iceland, og Davíð Ólafur Ingimarsson, fjármálastjóri fyrirtækisins, tóku á móti verðlaunum í París í gærkvöld.
Guide to Iceland stimplaði sig sem eitt hraðast vaxandi fyrirtæki Evrópu, Afríku og Mið-Austurlanda í alþjóðlegu Deloitte Technology Fast 500 keppninni um hraðast vaxandi tæknifyrirtæki heims. Guide to Iceland varð í þriðja sæti í keppninni en verðlaunaafhending fór fram í París í gærkvöld. Deliveroo frá Bretlandi varð í efsta sæti og Lesara Gmbh frá Þýskalandi í öðru sæti yfir hraðast vaxandi fyrirtækin.

Guide to Iceland var fulltrúi Íslands í keppninni eftir sigur hér heima en fyrirtækið hefur vaxið um meira en 30.000 prósent á síðustu fjórum árum. Þá var haft eftir Sigurði Páli Haukssyni, forstjóra Deloitte á Íslandi, að líklega væru engin fordæmi fyrir slíkum vexti í íslensku viðskiptalífi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Við erum auðvitað svolítið svekkt að hafa ekki unnið en fyrirtækin sem lentu í fyrsta og öðru sæti eru samt sem áður mjög sterk og við erum því ánægð og stolt af árangrinum,“ segir Xiaochen Tian, framkvæmdarstýra Guide to Iceland.

„Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir það mikla starf sem við höfum staðið fyrir en 2017 hefur verið frábært ár fyrir okkur. Við vonum samt að Íslendingar geti verið stoltir af því að nýsköpunarfyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu sé að sýna þennan árangur á alþjóðavísu.“

Guide to Iceland er markaðstorg fyrir íslenska ferðaþjónustu og var stofnað árið 2012. Hjá Guide to Iceland starfa yfir 50 manns á Íslandi en það hefur líka höfuðstöðvar í Beijing, Kína og Kharkiv, Úkraínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×