Erlent

Mótmæli í Austurríki þegar hægristjórnin tók við völdum

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla var með mikinn viðbúnað í Vínarborg fyrr í dag.
Lögregla var með mikinn viðbúnað í Vínarborg fyrr í dag. Vísir/afp
Búið er að girða af stórt svæði í kringum ráðuneytisbyggingar í Vínarborg þar sem hægristjórn hins 31 árs gamla Sebastian Kurz tók við völdum fyrr í dag. Fjölmenn mótmæli fóru þar fram þar sem þeirri staðreynd að þjóðernisflokkurinn, Frelsisflokkurinn, hafi fengið valdamikil ráðherraembætti í nýrri stjórn var mótmælt.

Þjóðarflokkurinn hlaut mest fylgi í þingkosningunum í október og ákvað formaðurinn Kurz að hefja viðræður um myndun nýrrar stjórnar við Frelsisflokknum eftir samstarf Þjóðarflokksins og Jafnaðarmannaflokksins síðustu ár. Frelsisflokkurinn er með harða afstöðu í innflytjendamálum sem var helsta kosningamálið í Austurríki í haust.

Þjóðarflokkurinn mun taka við ráðuneyti innanríkismála, varnarmála og utanríkismála. Þannig er Karin Kneissl nýr utanríkisráðherra, en hún er ekki skráð í flokknum þó hún sé talin nátengd honum. Formaður flokksins, Heinz-Christian Strache, verður varakanslari, og fyrrverandi forsetaframbjóðandinn Norbert Hofer verður ráðherra innanríkismála. Þó að Frelsisflokkurinn hafi um margra áratuga skeið verið áhrifavaldur í austurrískum stjórnmálum er þetta í fyrsta sinn sem flokkurinn er í svo valdamikilli stöðu.

Kurz mun sjálfur halda utan um málefni Evrópusamvinnunnar, en hann gegndi embætti utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili. Kurz hefur lagt áherslu á að ekki verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Austurríkis innan ESB og að ekki verði breyting á afstöðu Austurríkis þegar kemur að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum.

Ný ríkisstjórn hyggst lækka skatta á barnafjölskyldur og tekjulága og fjölga lögreglumönnum og herða landamæraeftirlit til að fækka innflytjendum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×