Erlent

Bandaríkin skerða framlög til Sameinuðu þjóðanna um þrjátíu milljarða

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Nikki Haley, fasta­full­trúi Banda­ríkj­anna hjá Sam­einuðu þjóðunum, sagði eftir atkvæðagreiðsluna að niðurstaðan myndi hafa áhrif á fjárframlög.
Nikki Haley, fasta­full­trúi Banda­ríkj­anna hjá Sam­einuðu þjóðunum, sagði eftir atkvæðagreiðsluna að niðurstaðan myndi hafa áhrif á fjárframlög. Vísir/AFP
Bandarísk stjórnvöld hafa gefið út yfirlýsingu þar sem kemur fram að þau munu skerða fjárframlög til Sameinuðu þjóðanna um 285 milljónir dollara, eða um rúmlega þrjátíu milljarða íslenskra króna. Þetta kemur í kjölfar ákvörðunar meirihluta aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að hafna viðurkenningu Bandaríkjanna á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Bandaríkin leggja til 22% af árlegum fjárframlögum samtakanna. Í yfirlýsingunni segja bandarísk yfirvöld að á næsta ári verði framlög til Sameinuðu þjóðanna skert um áðurnefnda upphæð og að ótilgreindar skerðingar verði gerðar til stjórnar og stuðningsstofnanna Sameinuðu þjóðanna. Því er ekki ljóst hver heildarniðurskurðurinn verður.

Síðastliðinn fimmtudag samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að fordæma þá ákvörðun Bandaríkjanna að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Eftir atkvæðagreiðsluna sagði Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, að Bandaríkin myndu muna þessa ákvörðun þegar kæmi að fjárframlögum. Þá sagði Bandaríkjaforseti, Donald Trump, að þjóðin myndi spara mikinn pening ef kosið væri gegn þeim og að þeim væri alveg sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×