Enski boltinn

Gylfi: Næstu vikur geta breytt öllu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson telur að Everton geti umbreytt tímabilinu með því að ná góðum úrslitum í leikjum sínum yfir jólahátíðirnar.

Eftir að Sam Allardyce tók við stjórn Everton í lok nóvembermánaðar hefur gengi liðsins gjörbreyst, en liðið var í fallsæti þegar Ronald Koeman var rekinn fyrr á árinu. Liðið situr nú í níunda sæti.

„Tímabilið byrjaði mjög hægt og erfiðlega, en nú líta hlutirnir betur út,“ sagði Gylfi Þór í viðtali við heimasíðu Everton. „Við þurfum enn að bæta okkur til að halda sama krafti inn í erilinn um jólin.“

Everton spilar fjóra deildarleiki á næstu tveimur vikum og bikarleik við Liverpool. Næsti leikur liðsins er gegn Chelsea á heimavelli. Á almannaksárinu 2017 hefur Everton unnið 15 af 19 leikjum sínum, aðeins Arsenal hefur gert betur með 16 sigra.

„Chelsea er mjög gott lið og við verðum að spila virkilega vel og sjá til þess að við nýtum færin okkar. Þeir eru mjög góðir varnarlega, og ekki svo slæmir fram á við heldur. Þetta verður erfiður leikur en við höfum verið að ná góðum úrslitum og viljum byggja á því.“

„Það er miklu skemmtilegra fyrir stuðningsmennina að mæta á völlinn núna. Andrúmsloftið á vellinum er miklu betra og ef við höldum áfram verður þetta enn betra fyrir stuðningsmennina,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.

Leikur Everton og Chelsea verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 klukkan 12:20 á Þorláksmessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×