Enski boltinn

Desember örlagríkur fyrir knattspyrnustjóra Swansea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Clement.
Paul Clement. Vísir/Getty
Paul Clement er þriðji knattspyrnustjóri Swansea sem er sagt upp störfum í desember á jafn mörgum árum. Clement var látinn fara í gær eftir 3-1 tap liðsins gegn Everton um helgina, þar sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt marka Everton.

Gylfi Þór var seldur frá Swansea í sumar til Everton fyrir metfé en hann var á mála hjá velska liðinu þegar hinir tveir stjórarnir voru reknir. Sá fyrri var Garry Monk, fyrrum fyrirliði Swansea, sem var látinn taka poka sinn í desember árið 2015.

Monk tók við í febrúar 2014 af Michael Laudrup en á næstu leiktíð á eftir endaði Swansea í áttunda sæti deildarinnar sem er besti árangur liðsins frá upphafi. Liðið náði ekki að fylgja því eftir haustið 2015 og var Monk rekinn í byrjun desember.

Bob Bradley tók við Swansea af Francesco Guidolin í október 2016 en entist í aðeins 85 daga og ellefu leiki. Swansea vann aðeins tvívegis undir hans stjórn og var Bandaríkjamaðurinn rekinn eftir 4-1 tap fyrir West Ham á öðrum degi jóla.

Þegar Clement tók svo við í byrjun janúar á þessu ári var Swansea í neðsta sæti deildarinnar með aðeins tólf stig eftir nítján umferðir. En Clement hélt liðinu uppi, með magnaðan Gylfa Þór í aðalhlutverki. Gylfi fór þó í sumar, rétt eins og Fernando Llorente og Jack Cork, og hefur Clement ekki tekist að fylla í skarð þeirra.


Tengdar fréttir

Clement rekinn frá Swansea

Enska úrvalsdeildarliðið Swansea hefur rekið knattspyrnustjóra sinn, Paul Clement.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×