Innlent

Heildarfasteignamat íbúða fer í tæpa fimm þúsund milljarða á næsta ári

Heimir Már Pétursson skrifar
Fasteignamat hækkar að meðaltali um 13,8 prósent frá þessu ári.
Fasteignamat hækkar að meðaltali um 13,8 prósent frá þessu ári. vísir/eyþór
Fasteignamat íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á Íslandi fyrir næsta ár er 7.300 milljarðar króna og hækkar að meðaltali um 13,8 prósent frá þessu ári. Hækkun á mati íbúðarhúsnæðis er mest á Húsavík af öllum bæjum landsins eða 42,2 prósent sem formaður Byggðaráðs bæjarins skrifar á aukna ferðaþjónustu og framkvæmdir á Bakka.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mikið á undanförnum árum enda skortur á íbúðahúsnæði. Hækkun fasteignamats íbúðarhúsnæðis fyrir næsta ár á höfuðborgarsvæðinu er mest í Blesugróf eða 27,8 prósent og verður heildarfasteignamat íbúðarhúsnæðis á landinu á næsta ári rétt tæpar 5 billjónir eða 4.980 milljarðar króna.

Hækkunin er örlítið minni utan höfuðborgarsvæðisins eða 12,2 prósent í sérbýli og 13,7 prósent í fjölbýli.
Meðaltals hækkun fasteignamats íbúðarhúsnæðis á landinu öllu er 15,8 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu er meðaltalshækkun í sérbýli 17,5 prósent og 15,4 prósent í fjölbýli. Hækkunin er örlítið minni utan höfuðborgarsvæðisins eða 12,2 prósent í sérbýli og 13,7 prósent í fjölbýli.

Húsavík sker sig hins vegar úr hvað varðar hækkun fasteignamats í einstökum bæjarfélögum en þar hækkar matið um hvorki meira né minna en 42,2 prósent og í sveitarfélaginu Kjósahreppi er hækkunin svipuð eða 41,3 prósent.

Óli Halldórsson formaður Byggðaráðs Húsavíkur og Norðurþings segir uppbygginguna á Bakka hluta af skýringunni á mikilli hækkun fasteignamats.

„Þá hefur ferðaþjónustan verið að eflast mjög hratta á Húsavík og það er alveg ljóst að þessir tveir þættir eru kannski mest afgerandi í þessari hækkun á húsnæðisverði. Þar sem ferðaþjónustan bæði fyrir starfsfólk og kúnna pressar á húsnæðismarkaðinn en einnig auðvitað þessi uppbyggingartími á Bakka,“ segir Óli.

Af einstökum hverfum á höfuðborgarsvæðinu er hækkunin mest í Blesugróf eins og áður sagði eða 27,8 prósent og síðan í neðra Breiðholti 21,5 prósent og 20 prósent í Fellunum. Í miðborginni er meðaltalshækkunin í kring um 16 prósent, en getur þó farið vel yfir tuttugu prósent á einstökum svæðum miðborgarinnar.

Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala segir hækkun fasteignamatsins, í takti við ástandið á markaðnum.

Það eru búnar að vera miklar hækkanir mörg ár í röð, er það gott?„Það er alltaf betra að hækkanir séu jafnt og þétt. Í takti við kaupmátt og aðstæður í landinu. Þannig að þessar öru hækkanir frá síðasta ári; ég get ekki sagt að þær séu slæmar, en  þær hefðu mátt vera jafnari.“

Eftirspurnin er auðvitað gífurleg, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu?

„Já, eins og staðan er í dag vantar okkur íbúðir inn á markaðinn. Í augnablikinu er lítið til sölu þótt við sjáum fram á að það eigi eftir að batna á næstu misserum,“ segir Kjartan Hallgeirsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×