Innlent

Lömb byrjuð að koma í heiminn

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Guðbjörg Hannesdóttir, sauðfjárbóndi á Litla Hálsi í Grafningi.
Guðbjörg Hannesdóttir, sauðfjárbóndi á Litla Hálsi í Grafningi. vísir/mhh
Lítil og falleg lömb eru nú að byrja að koma í heiminn hjá sauðfjárbændum landsins því sauðburður er hafinn. Á bæ í Grafningi eru nokkrar kindur bornar bóndanum til mikillar undrunar. Hundurinn Logi spilar þar stórt hlutverk því hann gætir lambanna eins og sjáaldur augna sinna.  

Guðbjörg Hannesdóttir, ein af þremur dætra hjónanna á Litla Hálsi tók að sér að sjá um búskapinn á bænum á meðan foreldrarnir skruppu til sólarlanda í frí. Það átti enginn von á því að ærnar færu að bera en annað kom í ljós, um 20 lömb eru nú þegar komin í heiminn.

Guðbjörg segist ekki hafa átt von á þessu. „Alls ekki. Það átti að vera sauðburður í maí. En það eru bara frjálsar ástir og allir glaðir með það. Öllum heilsast vel og þetta er rosa gaman,“ segir hún.

Guðbjörg segist fá góða hjálp frá hundunum við að vakta féð og lömbin, aðallega þó frá Loga sem er vakin og sofinn yfir lömbunum. „Logi er hérna úti um allt. Og Kló sér um að þrífa. Þetta eru hreinræktaðir ástralskir fjárhundar sem taka virkan þátt.“

Þó að það séu komin lömb á Litla Hálsi og nokkrum öðrum bæjum víða um land hefst eiginlegur sauðburður ekki fyrr en í næsta mánuði. Guðbjörg segir að sauðburður sé lang skemmtilegasti tíminn í sveitinni.

„Þetta er yndislegur tími. Þetta er vorboðinn, enda er hann kominn núna þegar lömbin eru komin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×