Erlent

Einn af hverjum fimm Áströlum orðið fyrir hefndarklámi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Karlar eru jafn líklegir og konur til þess að verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi.
Karlar eru jafn líklegir og konur til þess að verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. vísir/getty
Einn af hverjum fimm Áströlum hefur orðið fyrir hefndarklámi á ævinni, samkvæmt nýrri könnun sem gerð var í landinu. Þá eru karlar jafn líklegir og konur til þess að verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi.

Fimmtungur aðspurðra sagðist hafa lent því því að nektarmyndir hafi verið teknar af sér án leyfis og ellefu prósent sögðu myndirnar hafa verið settar í dreifingu.

Karlar eru líklegri gerendur og þá eru konur líklegri til þess að hafa meiri áhyggjur af hefndarklámi og afleiðingum þess. Minnihlutahópar eru sömuleiðis líklegri til þess að verða fyrir slíku ofbeldi, en þá er meðal annars átt við fatlaða og hinsegin fólk.

Vilja lög um hefndarklám

Breska ríkisútvarpið hefur eftir forsvarsmönnum könnunarinnar að niðurstöðurnar hafi leitt það í ljós að stafrænt kynferðisofbeldi sé mun útbreiddara en áður var talið. Hafa þeir lagt til að sérstakur gagnagrunnur verði settur á fót svo hægt verði að halda úti eftirliti í slíkum málum. Þeir segja gerendur nota myndirnar til þess að stjórna fólki, misnota það og niðurlægja og vilja að hefndarklámi verði komið inn í hegningarlög í landinu.

Dreifing kynferðislegs efnis, hvort sem um er að ræða ljósmyndir eða myndbönd, í óþökk þess sem á því birtist hefur verið kallað stafrænt kynferðisofbeldi, hrelliklám eða hefndarklám. Tvívegis hefur verið gerð tilraun til að skilgreina slíkt ofbeldi í hegningarlögum hér á landi en í hvorugt skiptið náði frumvarpið fram að ganga.

Ástralska könnunin er sú umfangsmesta af sínu tagi þar í landi en hún náði til 4.200 manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×