Innlent

Sló barn í bringuna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Maðurinn sló barnið skammt frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Maðurinn sló barnið skammt frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Vísir/Hrönn
Ölvun og annarlegt ástand einkenndi þær tilkynningar sem lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust í nótt.

Karlmaður var handtekinn eftir að hafa ráðist á dyravörð á veitingahúsi við Laugaveg á tíunda tímanum. Er hann sagður hafa veitt honum sjáanlega áverka, þannig hafi tönn í dyraverðinum brotnað og er hann í dagbók lögreglu einnig sagður hafa fengið heilahristing. Dyravörðurinn var fluttur á slysadeild en hinn handtekni gistir nú fangageymslu.

Annar karlmaður var handtekinn í Hamrahlíð um klukkustund síðar, einnig grunaður um ofbeldisbrot. Er hann grunaður um að veitast að 15 ára dreng, meðal annars á hann að hafa slegið hann í bringuna. Hann gistir jafnframt fangageymslu lögreglunnar meðan mál hans er til rannsóknar.

Það var svo rétt fyrir klukkan 23 sem par, í annarlegu ástandi, var handtekið við Bjarkavelli í Hafnarfirði þar sem það er sagt hafa valdið ónæði. Þá er það einnig grunað um vörslu fíkniefna. Rétt eins og ofbeldismennirnir tveir var parið vistað í fangageymslu í nótt.

Þá þurfti lögreglan að stöðva í það minnsta átta ökumenn sem grunaðir eru um að hafa ekið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×