Innlent

Svikulir styrkþegar EES Uppbyggingarsjóðsins njóta leyndar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Utanríkisráðuneytið synjaði beiðni Thorenfeldt, á þeim grundvelli að um milliríkja samskipti væri að ræða.
Utanríkisráðuneytið synjaði beiðni Thorenfeldt, á þeim grundvelli að um milliríkja samskipti væri að ræða. Vísir/E.Ól
Utanríkisráðuneytið hafnaði nýverið beiðni norsks blaðamanns, Gunnars Thorenfeldt, um aðgang að gögnum um fjársvikamál styrkþega úr uppbyggingarsjóði EES. Sjóðurinn er rekinn af Noregi, Íslandi og Liechtenstein og árlegt framlag Íslands til sjóðsins nemur nálægt hálfum milljarði.

Thorenfeldt hefur haft sjóðinn til rannsóknar um nokkurn tíma, til að varpa ljósi á hvernig skattfé Norðmanna er varið. Hann óskaði upplýsinga hjá utanríkisráðuneytinu um mál pólsks bæjarstjóra sem vann að verkefni sem hlotið hafði styrk úr sjóðnum. Bæjarstjórinn stakk af með styrkféð og var síðar sakfelldur fyrir misferlið af pólskum dómstól.

Fjallað var um málið í frétt norska miðilsins Dagbladed síðastliðinn sunnudag. Í skýrslu sjóðsins um misferlið, sem Thorenfeldt hefur undir höndum, höfðu allar helstu upplýsingar um málið verið afmáðar, nafn mannsins, nafn og númer verkefnisins, styrkfjárhæðin og upplýsingar um dómstólinn sem kvað upp dóminn. Þegar Thorenfeldt óskaði skýringa á þessari upplýsingaleynd, vísaði skrifstofa sjóðsins í Brussel á utanríkisráðuneyti aðildarríkja sjóðsins, sem leiddi Thorenfeldt til íslenskra stjórnvalda.

Utanríkisráðuneytið synjaði honum um aðgang að umræddum upplýsingum, á þeim grundvelli að upplýsingarnar vörðuðu milliríkjasamskipti og væru þar af leiðandi undanþegnar upplýsingarétti. Í svarinu var ekki rökstutt hvernig upplýsingarnar vörðuðu almannahagsmuni, sem er þó skilyrði laganna fyrir synjun um aðgang að upplýsingum.

„Það kom mér mjög á óvart að á Íslandi, sem ég hélt að hefði upplýsingalöggjöf á heimsmælikvarða, gilti upplýsingaleynd um misnotkun á skattfé Íslendinga,“ segir Thor­enfeldt. Hann hefur víðar rekist á veggi með upplýsingaöflun sína um þau verkefni sem hafa verið styrkt af sjóðnum, sem hefur það hlutverk að styrkja verkefni í ríkjum Suður- og Austur-Evrópu til að vinna gegn efnahagslegri og félagslegri mismunun.

Eftir að hafa fengið synjun frá þeim ríkjum sem verja skattfé til sjóðsins, leitaði Thorenfeldt til styrkþegaríkisins sjálfs, Póllands. Þar fékk hann allar upplýsingarnar sem hann óskaði eftir undanbragða- og umsvifalaust.

Í fyrrnefndri frétt Dagbladed kemur fram að norsk upplýsingalög kveði á um að allar upplýsingar um misnotkun á almannafé skuli aðgengilegar almenningi og reglur sjóðsins séu því í andstöðu við norsk lög. Haft er eftir Frank Bakke-Jensen, Evrópumálaráðherra Noregs að Norðmenn ráði reglum sjóðsins ekki einir, þær hafi verið unnar í samráði ríkjanna þriggja og bendir á Ísland og Liechtenstein.

Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Thorenfeldts, segir að ekki hafi verið talið að reglur sjóðsins um gegnsæi og upplýsingarétt væru ófullnægjandi en að sjálfsögðu væru íslensk stjórnvöld reiðubúin til umræðu um þær verði þess óskað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×