Innlent

Var til vandræða á athafnasvæði hópferðafyrirtækis og sló starfsmann í höfuðið

Anton Egilsson skrifar
Maður reyndi að setjast undir stýri á rútu á athafnasvæði hópferðafyrirtækis í Reykjavík.
Maður reyndi að setjast undir stýri á rútu á athafnasvæði hópferðafyrirtækis í Reykjavík. Vísir/Hari
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að aðstoðar lögreglu hafi verið óskað á sjöunda tímanum í morgun vegna karlmanns sem var til vandræða inni á athafnasvæði hópferðafyrirtækis  í Reykjavík. Var maðurinn þá kominn inn í rútu og gerði tilraun til að setjast undir stýri á henni. Varð hann ekki við beiðni starfsmanna fyrirtækisins um að yfirgefa rútuna en þegar lögreglu bar að garði hafði maðurinn slegið einn starfsmanninn í höfuðið. Var hann í kjölfarið handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Þá var á sjötta tímanum í morgun óskað eftir aðstoð lögreglu vegna eignaspjalla sem unnin höfðu verið á rútu sem átti leið í miðborginni. Hafði þar ölvaður einstaklingur lamið í hliðarspegil á rútunni með þeim afleiðingum að spegillinn brotnaði.

Laust fyrir klukkan sjö í morgun var lögreglu tilkkynnt um karlmann sem lá sofandi ölvunarsvefni fyrir utan íbúðarhús í miðborginni. Var karlmaðurinn vakinn og honum ekið heim til sín.

Leigubifreiðastjóri óskaði þá á sjötta tímanum eftir aðstoð lögreglu vegna farþega sem var til vandræða í leigubifreið hans. Varð það úr að farþeganum var ekið heim til sín eftir að hafa rætt við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×