Erlent

Dómari hafnaði kröfu Mossack og Fonseca um lausn gegn tryggingu

Anton Egilsson skrifar
Lögfræðistofan Mossack Fonseca er talin tengjast umsvifamiklu mútu- og hneykslismáli.
Lögfræðistofan Mossack Fonseca er talin tengjast umsvifamiklu mútu- og hneykslismáli. Vísir/AFP
Dómari í Panama hafnaði kröfu Jürgen Mossack og Ramon Fonseca, eigenda lögfræðistofunnar Mossack Fonseca, um lausn gegn tryggingu en þeir voru handteknir á föstudag.  The Guardian greinir frá þessu.

Marlene Guerra, lögmaður Mossack, sagði fjölmiðlum í kjölfar niðurstöðunnar að umbjóðanda hans hefði verið neitað um lausn gegn tryggingu sökum þess að hætta var talin á að hann myndi yfirgefa landið til að sinna viðskiptaerindum.

Þeir Mossack og Fonseca voru handteknir í kjölfar húsleitar sem gerð var í húsnæði lögfræðistofunnar á aðfaranótt föstudags. Ástæða húsleitarinnar var sú að kanna meint tengsl stofunnar við brasilíska verkfræðifyrirtækið Odebrecht. Odebrecht hefur viðurkennt að hafa mútað yfirvöldum og öðrum löndum til að fá hagstæða samninga á árunum 2010 til 2014. 

Kenia Porcell, ríkissaksóknari Panama, lýsti því yfir á blaðamannafundi á fimmtudag að gögn sem hún hefði undir höndum bentu eindregið til þess að Mossack Fonseca væru glæpasamtök sem stuðluðu að því að fela eignir og peninga sem aflað hefði verið með vafasömum hætti, nánar tiltekið með mútugreiðslum.

Það er Íslendingum eflaust í fersku minni þegar gögnum frá Mossack Fonseca var lekið í apríl í fyrra en í kjölfarið komst upp um fjölda manns sem fyrirtækið hafði aðstoðað við að fela fé í skattaskjólum.


Tengdar fréttir

Húsleit hjá Mossack Fonseca

Húsleit var gerð í húsnæði lögfræðistofunnar Mossack Fonseca í Panama í nótt.

Eigendur Mossack Fonseca handteknir

Jürgen Mossack og Ramon Fonseca, eigendur lögfræðistofunnar Mossack Fonseca, hafa verið handteknir í kjölfar húsleitar sem gerð var í húsnæði lögfræðistofunnar aðfararnótt föstudags. Er lögfræðistofan sögð tengjast umsvifamiklu mútu- og hneykslismáli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×