Innlent

Ákvörðun um frekari leit að Arturi tekin á morgun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgunarsveitarmenn hafa komið að leitinin að Arturi
Björgunarsveitarmenn hafa komið að leitinin að Arturi Vísir/Eyþór
Ákvörðun um áframhaldandi leit að Arturi Jarmoszko, sem ekkert hefur spurst til frá 1. mars verður tekin á morgun að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að rannsókninni á hvarfi Arturs Jarmoszko miði ágætlega en áherslan sé lögð á að kortleggja ferðir hans. Áfram sé unnið að því að afla gagna og yfirfara þau en sú vinna sé nokkuð tímafrek.

Lögreglan fundar með Landsbjörgu í hádeginu á morgun þar sem tekin verður ákvörðun um næstu skref. Formleg leit að Arturi hefur ekki verið í gangi frá því á mánudaginn þegar tuttugu björgunarsveitarmenn auk Landhelgisgæslunnar leituðu að Arturi á landi, úr lofti og á sjó en án árangurs.

Málið er rannsakað sem mannshvarf. Nánast útilokað er talið að Artur Jarmoszko hafi farið af landi brott með hefðbundnum leiðum.

Talið er að Artur sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, í bláum gallabuxum og í hvítum strigaskóm. Hann er grannvaxinn, 186 sentimetrar á hæð, með græn augu og stutt, dökkt hár.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

Nýta lágfjöru til leitar að Arturi

Leit að Arturi Jarmoszko, 25 ára karlmanni frá Póllandi, mun hefjast að nýju í hádeginu í dag. Leitað verður á sama svæði og í gær.

Artur fór í bíó kvöldið sem hann hvarf

Leit að Arturi Jarmoszko, 25 ára pólskum karlmanni sem ekkert hefur spurst til í tvær vikur, hefur enn engan árangur borið en um tuttugu björgunarsveitarmenn leituðu hans í dag. Lögregla hefur fengið þónokkrar ábendingar frá almenningi undanfarinn sólarhring og fjölskylda Arturs hefur látið pólsk lögregluyfirvöld vita af hvarfi hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×