Innlent

Starfsmaður Landspítalans sveik tæpar 300 þúsund krónur af sjúklingi

Birgir Olgeirsson skrifar
Konan vann við umönnun sjúklingsins en stal korti hans á meðan hann lá á Landspítalanum.
Konan vann við umönnun sjúklingsins en stal korti hans á meðan hann lá á Landspítalanum. Vísir
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt konu til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að hafa svikið tæpar 300 þúsund krónur út af sjúklingi sem lá á Landspítalanum.

Konan hafði stolið debetkorti sjúklingsins á meðan hann lá á Landspítalanum í Fossvogi en konan starfaði þar við umönnun sjúklingsins.

Hún notaði kortið í hraðbönkum á Landspítalanum og verslunarmiðstöðinni Kringlunni í Reykjavík.

Konan kom fyrir dóm og játaði sök.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot konunnar varðaði ekki mjög háa fjárhæð en það var talið afar ámælisvert þegar litið er til aðstæðna.

Var refsingin ákveðin fjögurra mánaða fangelsisvist en vegna dráttar á málinu hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og þeirrar staðreyndar að konan hafði ekki sakaferil var refsingin skilorðsbundin til tveggja ára.

Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra kom fram að ekki væri annað sé en að rannsókn lögreglu á málinu hafi lokið í nóvember 2015 en samt sem áður var það ekki fyrr en 13. febrúar á þessu ári sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sendi lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra málið til þóknanlegrar meðferðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×