Erlent

Mál Troadec-fjölskyldunnar: Bútaði niður lík, brenndi og gróf niður

Atli Ísleifsson skrifar
Troadec-fjölskyldan hvarf sporlaust um miðjan síðasta mánuð. Pascal, Brigitte, Sebastien og Charlotte.
Troadec-fjölskyldan hvarf sporlaust um miðjan síðasta mánuð. Pascal, Brigitte, Sebastien og Charlotte. Vísir/AFP
Maðurinn sem hefur viðurkennt að hafa myrt Troadec-fjölskylduna með kúbeini um miðjan síðasta mánuð kveðst hafa nýtt dagana sem fylgdu í að losa sig við líkin.

Málið Troadec-fjölskyldunnar hefur vakið mikla athygli í Frakklandi og víðar en til að byrja með virtist sem að jörðin hafi einfaldlega gleypt hjónin Pascal og Birgitte Troadec og tvö börn þeirra, Sebastien, 21 árs, og Charlotte, átján ára. Þannig voru tannburstarnir horfnir, matvörurnar í ísskapnum teknar að rotna og blaut föt voru enn í þvottavélinni á heimili fjölskyldunnar í smábænum Orvault fyrir utan Nantes.

Saknað í þrjár vikur

Fjölskyldunnar hafði verið saknað í þrjár vikur þegar lögreglan lýsti því yfir að grunur lægi á að fjölskyldunni hafi verið ráðinn bani. Blóðblettir fundust á heimilinu og var upphaflega talið að sonurinn Sebastien hafi mögulega myrt báða foreldra sína og systur.

Í gær var hins vegar greint frá því að maður systur Pascal, Hubert Caouissin, hafi viðurkennt í yfirheyrslu að hafa drepið fjölskylduna. Sagði lögregla að erfðadeilur, meðal annars um gullstangir, hafi leitt til þess að Caouissin drap fjölskylduna.

Frá heimili Troadec-fjölskyldunnar í Orvault.Vísir/AFP
Lá á hleri

Saksóknarinn Pierre Sennes greindi svo síðdegis í gær frá því að Caouissin hafi lýst því fyrir lögreglu hvernig hann hafi myrt Troadec-fjölskylduna. Hafi hann mætt að heimili fjölskyldunnar þann 16. febrúar og notast við hlustunartæki til að fylgjast með samtölum fjölskyldunnar í gegnum hurðir og útveggi hússins.

Caouissin fullyrðir að hann hafi svo brotist inn á heimilið að nóttu til að stela lykli, en að Troadec hafi vaknað við umganginn. Þau hafi svo verið drepin þegar þau komu niður af efri hæðinni. Eftir að hafa banað hjónunum drap Caouissin börnin tvo og ók svo aftur heim til sín á Bretaníuskaga þar sem hann greindi konu sinni frá ódæðinu.

Bútið niður, grafin og brennd

Við yfirheyrslur sagði Caouissin að hann hafi daginn eftir ekið aftur til Orvault til að fela ummerkin um morðin. Kom hann líkunum fyrir í bíl Sebastien. „Næstu tvo, þrjá dagana reyndi hann svo að losa sig við líkin. Það lítur út fyrir að einhver þeirra hafi verið bútuð niður, önnur grafin niður og önnur brennd,“ sagði saksóknarinn Sennes, en bíll Sebastien fannst í hafnarbænum Saint Nazaire.

Caouissin hafði verið yfirheyrður snemma við rannsókn hverfsins en sagðist þá ekki hafa hitt Troadec-fjölskylduna í nokkur ár. Hann breytti þó framburði sínum eftir að lífsýni af honum fundust á heimili fjölskyldunnar.

Caouissin og kona hans verða nú ákærð fyrir morð og yfirhylmingu.


Tengdar fréttir

Viðurkennir að hafa myrt frönsku fjölskylduna

Franskir fjölmiðlar segja að maður sem tengist Troadec-fjölskyldunni fjölskylduböndum hafi viðurkennt að hafa myrt fjölskylduna sem hafur verið saknað síðan um miðjan febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×