Innlent

Taldi Kim Jung-Un lesa hugsanir sínar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Húsfyllir var á fyrirlestri Yeonmi Park í Háskóla Íslands í dag. Hún flúði frá Norður-Kóreu þegar hún var aðeins þrettán ára gömul og berst í dag gegn mannréttindabrotum þar í landi. 

Ítarlegt viðtal við Park má sjá í heild sinni neðst í fréttinni.

Park flúði ásamt móður sinni til Kína þar sem hungursneið var það eina sem við þeim blasti eftir að faðir hennar var dæmdur til sautján ára þrælkunarvinnu.

„Mig dreymdi bara um að finna hrísgrjónaskál. Hamingjan fólst í því," segir Yeonmi Park.

Til þess að komast frá Norður-Kóreu þurftu mæðgurnar að ganga á vald mansalshrings sem gat borgað leið þeirra til Kína. Mikil spurn hefur verið eftir konum frá Norður-Kóreu í Kína síðan eins-barns stefnan var tekin upp þar í landi. Norður-Kóreskar konur ganga þar kaupum og sölum en móðir hennar var seld á 65 Bandaríkjadali, eða um sjö þúsund krónur.

Yeonmi Park sagði Íslendinga geta verið þakkláta fyrir að hafa forsætisráðherra, eins og þann sem bauð hana velkomna í pontu á fundinum í dagVísir/Anton Brink
„Það er mikið hættuástand þarna núna og var það líka á þessum tíma. Verðir standa með tíu metra millibili og skjóta alla sem sleppa. En í mínu tilviki var um mansal að ræða og þá mútuðu verðir öðrum vörðum," segir Park.

Hungrið var það sem knúði flóttann en Park segist á þeim tíma ekki hafa gert sér grein fyrir að hún væri í raun fangi.

„Ég vissi ekki að ég væri þræll. Ég vissi ekki að ég nyti mannréttinda sem manneskja."

Hún segist hafa verið lengi að venjast frelsinu eftir að hafa verið heilaþvegin árum saman. 

„Þeir sögðu mér margt slæmt um Kim Jung-Un og ég varði hann því ég hélt að hann gæti lesið hugsanir mínar. Ég naut ekki einu sinni frelsis í hugsunum mínum," segir Park.

Park þráir breytingar í Norður-Kóreu og óskar þess að geta snúið aftur í frjálst ríki. Hún telur þó að breytingar þurfi að vera knúðar áfram af íbúum landsins.

„Ef þeir fá að vita þeir eru þrælar munu þeir breytast og krefjast úrbóta. Ef þeir fá að vita að lífið geti verið eins og hér með rafmagn allan sólarhringinn, með hraðbrautir, bíla, hlý húsakynni, með nettengingu, þá munu þeir krefjast breytinga. Við erum jú öll eins," segir Park.

 

Sofið of lengi á verðinum

Hún hvetur alla til að láta til sín taka. Kynna sér ástandið í Norður-Kóreu og reyna koma skilaboðum áleiðis. Heimurinn hafi leitt þetta hjá sér of lengi. 

„Við höfum beðið of lengi, við höfum sofið á verðinum og nú stendur allt mannkynið frammi fyrir ógn frá N-Kóreu."

„Þeir hnepptu þjóð sína í fangabúðir. Ímyndið ykkur hvernig þeir munu fara með aðra. Þessi náungi drap sinn eigin bróður. Ímyndið ykkur hvað hann mun gera við aðra," segir Park.

Hér að neðan má sjá viðtalið við Park í heild sinni ótextað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×