Innlent

Úkraína á lista yfir örugg ríki

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Útlendingastofnun segir mannréttindi almennt virt í Úkraínu, að frátöldum þremur héröðum.
Útlendingastofnun segir mannréttindi almennt virt í Úkraínu, að frátöldum þremur héröðum. Vísir/Stefán
Útlendingastofnun hefur ákveðið að bæta Úkraínu, að undanskildum héruðunum Donetsk, Luhansk og Krím, á lista yfir örugg ríki.

„Úkraína er lýðræðisríki og þar eru ekki stundaðar kerfisbundnar ofsóknir gegn fólki. Það er mat stofnunarinnar að almennt megi telja aðstæður í Úkraínu góðar og að fullnægjandi aðstoð og úrræði séu til staðar fyrir borgara landsins, þegar litið er til annarra svæða en átakasvæðanna í austurhluta þess. Engum umsækjanda frá öðrum héruðum en þeim þremur sem undanskilin eru hefur verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi,“ segir í frétt á vef stofnunarinnar.

Ríkisborgarar Úkraínu hafa notið áritunarfrelsis inn á Schengen-svæðið síðan 11. maí 2017 og er Úkraína á lista yfir örugg ríki m.a. í Bretlandi, Hollandi og Lúxemborg. Í Noregi er ekki stuðst við lista yfir örugg ríki en þar eru umsóknir um alþjóðlega vernd frá ríkisborgurum Úkraínu afgreiddar í flýtimeðferð, sem eru 48 klukkustundir.

„Mannréttindi eru almennt virt í Úkraínu og kveður stjórnarskrá landsins á um jafnræði borgaranna. Úkraína er m.a. aðili að mannréttindasáttmála Evrópu, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og Genfarsáttmálanum, sem skuldbindur ríki til að senda ekki fólk þangað sem það kann að vera í hættu,“ segir Útlendingastofnun. Frekari rökstuðning er að finna í ákvörðun stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×