Enski boltinn

Marcus Rashford: Enska landsliðið getur orðið heimsmeistari næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford í leiknum á móti Íslandi á EM 2016.
Marcus Rashford í leiknum á móti Íslandi á EM 2016. Vísir/Getty
Marcus Rashford, leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, hefur trú á því að enska landsliðið geti orðið heimsmeistari næsta sumar þegar heimsmeistaramótið fer fram í Rússlandi.

Enska landsliðið er með fimm stiga forystu á toppi síns riðils í undankeppninni og vantar aðeins eitt stig til viðbótar til að tryggja sér farseðilinn til Rússlands.  Síðustu leikir enska liðsins eru á móti Slóveníu og Litháen og Marcus Rashford er í hópnum.

„Við erum að gera okkar besta í því að koma inn á HM með rétta skipulagið og réttu ákefðina til að vinna mótið,“ sagði Marcus Rashford en bætti við:

„Við horfum samt raunhæft á þetta og líka á leikin á móti þessum liðum í undankeppninni. Við verðum samt að byggja upp okkar skipulag þannig að við getum reynt við það að verða heimsmeistarar þegar við mætum á mótið,“ sagði Rashford. Sky Sports sagði frá.

Enska landsliðið hefur brunað í gegnum síðustu undankeppnir stórmóta en gengið svo á vegg í úrslitakeppnunum.

Einn af fyrstu landsleikjum Marcus Rashford var á móti Íslandi í sextán liða úrslitum EM í Frakklandi þar sem liðið varð að sætta sig við 2-1 tap á móti litla Íslandi.

Marcus Rashford var ánægður með heimsókn Sir Bobby Charlton en hann kom til móts við enska landsliðið og ræddi við leikmennina.  

„Bobby Charlton hefur unnið HM og að hitta hann getur ekki verið meiri hvatning fyrir leikmennina. Það sem hann segir okkur og minningar hans frá HM 1966 er eitthvað sem enginn annar getur gefið okkur,“ sagði Rashford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×