Fótbolti

Rúnar: Skiptir engu máli hvað ég segi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar með forsetanum Lambrecht þegar hann var ráðinn í fyrra.
Rúnar með forsetanum Lambrecht þegar hann var ráðinn í fyrra. Vísir/AFP
Rúnar Kristinsson, sem var í gær rekinn sem knattspyrnustjóri Lokeren í Belgíu, segir að ákvörðunin hafi komið honum í opna skjöldu. Hann sagði að ákvörðunin hafi verið tekin af einum manni.

„Það er bara einn maður sem stjórnar félaginu, hann er forsetinn og hann tekur þessa ákvörðun,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is í gær.

Aðeins tveir leikir voru liðnir af nýju tímabili eftir að Rúnari og Arnari Þór Viðarssyni, aðstoðarmanni hans, hafði tekist að bjarga liðinu frá falli síðastliðið vor.

Sjá einnig: Rúnar rekinn frá Lokeren

„Maðurinn á klúbbinn,“ sagði Rúnar um forsetann Roger Lambrecht. „Hann er orðinn 85 ára og stýrir þessu, og það skiptir engu máli hvað ég segi. Svona er þetta bara, og þetta fær mann aðeins til að hugsa um hvað maður vilji gera í þessu blessaða lífi.“

Ari Freyr Skúlason er leikmaður Lokeren og segir fráleitt að Rúnar hafi verið rekinn eftir tvo leiki, einnig í samtali við mbl.is.

„Við vorum bara á æfingu í morgun og allt í góðu. Svo fengum við að vita þetta eftir æfingu, og það er strax kominn nýr þjálfari. Hann er ekkert að skafa af hlutunum, forseti félagsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×