Fótbolti

Úr frystinum og til Juventus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Randal Kolo Muani í búningi Juventus.
Randal Kolo Muani í búningi Juventus. getty/Daniele Badolato

Franski framherjinn Randal Kolo Muani er genginn í raðir Juventus á láni frá Paris Saint-Germain. Lánssamningurinn gildir út tímabilið.

Kolo Muani var meðal annars orðaður við Manchester United en Juventus krækti í franska landsliðsmanninn.

Hinn 26 ára Kolo Muani var úti í kuldanum hjá Luis Enrique, knattspyrnustjóra PSG, og var aðeins í byrjunarliðinu í tveimur leikjum í frönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

PSG keypti Kolo Muani frá Frankfurt fyrir háa fjárhæð sumarið 2023. Hann hefur skorað ellefu mörk í 54 leikjum fyrir Parísarliðið.

Juventus veitir ekki af liðsstyrk en Gamla konan er í 5. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, þrettán stigum á eftir toppliði Napoli. Juventus hefur reyndar ekki tapað deildarleik í vetur en gert þrettán jafntefli í 21 leik.

Kolo Muani hefur leikið 27 leiki fyrir franska landsliðið og skorað átta mörk. Hann er hvað þekktastur fyrir dauðafærið sem hann fékk í uppbótartíma framlengingarinnar í úrslitaleik HM 2022. Emiliano Martínez, markvörður Argentínu, varði þá frá Kolo Muani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×