Innlent

Vilja skilgreina skerta umgengni barna við foreldri sem ofbeldi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gunnar Kristinn Þórðarson, formaður Samtaka umgengnisforeldra, segir að skilgreina eigi umgengnistálmanir gagnvart foreldrum sem ofbeldi. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í dag.

„Það er mikið að gerast núna, mikil vakning í þessari umræðu, það er víða að koma í ljós hvað þetta er viðamikið og alvarlegt vandamál, fólk er óhræddara við að koma fram og segja frá reynslu sinni eins og greinar sem birst hafa í fjölmiðlum bera með sér.“

„Feður eru að koma fram og segja frá þessari skelfilegu reynslu, að þeir fá ekki að hitta börnin sín.“

Eru þetta ævinlega feður?

„Já, ég myndi segja að þetta sé kynbundið, það er örugglega til dæmi þess að konum sé meinað umgengni en þetta á eftir að rannsaka í sjálfu sér.“

„Við vitum það að það eru 500 umgengnismál hjá sýslumanni í gangi á ári, en við teljum að fjöldinn sé miklu meira en það.“

Gunnar bendir á að það sé mismunandi hvernig tálmar séu skilgreindir.

„Stundum eru tálmanir takmörkuð umgengni, ákveðin með gerræðislegum hætti en stundum er hún þannig að viðkomandi faðir fær aldrei að sjá barnið sitt.“

„Þetta er ofbeldi gegn barni en líka gagnvart föðurnum og svo megum við ekki ekki gleyma því að ömmurnar og afarnir sem koma til okkar eru líka reið yfir þessu.“

„Ofbeldið snýr ekki bara að föðurnum, það er barnið, það er ömmurnar og afarnir og öll fjölskyldan í kringum föðurinn.“

„Það er mál að mínu mati að þetta sé skilgreint sem ofbeldi. Þetta er að sjálfsögðu flókin mál en við bendum á það að öll ofbeldismál sem eiga sér stað innan veggja heimilis eru flókin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×