Innlent

Nýtt myndband átaksins #kvennastarf frumsýnt: „Það voru margir sem sögðu mér að konur ættu alls ekki að vera þarna“

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Myndir á vegum átaksins hafa þegar verið birtar á strætóskýlum borgarinnar.
Myndir á vegum átaksins hafa þegar verið birtar á strætóskýlum borgarinnar. visir/kvennastarf
„Karlmenn brugðust mjög mismunandi við þegar ég byrjaði í þessu starfi. Það voru margir sem sögðu mér að konur ættu alls ekki að vera þarna. En það var sem betur fer fleiri karlmenn sem tóku mér vel.“

Þetta segir Soffía Anna Sveinsdóttir pípulagningameistari í nýútkomnu myndbandi á vegum átaksins #kvennastarf.

Myndbandið er frumsýnt hér á Vísi og má horfa á það hér að neðan.

Fjallað var um herferðina í fréttatíma Stöðvar tvö síðastliðið föstudagskvöld. 

Í myndbandinu er rætt við kvenkyns pípulagningamenn en á meðal viðmælenda er Oddný María Gunnarsdóttir, fyrsti kvenpípulagningamaðurinn. Hún lauk sveinsprófi í pípulögnum árið 1990.

Mynd úr herferðinni.vísir/kvennastarf
Átakið #kvennastarf er samstarfsverkefni Tækniskólans, samtaka iðnaðarins og iðn- og verkmenntaskóla á landinu.

Í fréttatilkynningu segir að markmiðið með átakinu sé að „brjóta niður úreltar hugmyndir og benda ungu kynslóðinni á að allar leiðir séu færar í dag í námi og starfi fyrir bæði kynin.“

Nú þegar hafa ljósmyndir á vegum átaksins verið birtar á strætisvagnaskýlum á höfuðborgarsvæðinu en myndirnar sýna kvenkyns nemendur í iðngreinum undir myllumerkinu #kvennastarf.

Að auki verða gefin út nokkur myndbönd um nám og störf kvenna í nokkrum fögum, líkt og myndbandið hér að ofan.

Á vefnum kvennastarf.is má finna nánari upplýsingar um átakið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×