Innlent

Sárasótt í mikilli sókn

Birgir Olgeirsson skrifar
Það sem af er ári 2017 hafa átján karlmenn og tíu konur greinst með sárasótt.
Það sem af er ári 2017 hafa átján karlmenn og tíu konur greinst með sárasótt. Vísir/Anton
Aukning á fjölda tilfella af lekanda, sárasótt og HIV-sýkingu heldur áfram það sem af er ári 2017 og fjöldi klamydíutilfella er svipaður og árin á undan. Frá þessu er greint í Farsóttafréttum sóttvarnalæknis.

Þar segir að sárasóttin skeri sig úr og fjöldi greindra tilfella það sem af er ári sé langt umfram það sem greindist undanfarin ár.

Það sem af er ári 2017 hafa átján karlmenn og tíu konur greinst með sárasótt en hlutfallslegur fjöldi karla sem greinast með sjúkdóminn er svipaður og árin á undan.

Meðal aldur sýktra er 33 ár, á aldursbilinu 20 til 59 ára.

Embættið segir konur greinast einnig með sjúkdóminn en tvær þeirra hafa greinst í mæðravernd. Segir embættið að þetta benda til þess að sjúkdómurinn, sem fyrst og fremst hefur verið tengdur karlmönnum sem hafa mök við karla, sé tekinn að breiðast til kvenna, meðal annars á barneignaaldri. Er tekið fram að þessi alvarlegi sjúkdómur geti meðal annars valdið fósturskaða.

Nítján einstaklingar hafa greinst með HIV sýkingu á árinu. Meðalaldur hinna sýktu er 36 ár, á aldursbilinu 16 – 59 ára. Af þeim sem greinst hafa árinu er ein kona og ellefu eru af erlendu bergi brotnir.

Embættið segir áhættuhegðun tengjast sýkingu hjá samkynhneigðum í sjö tilfellum, fíkniefnaneytendum í fimm tilfellum og gagnkynhneigðum í fjórum tilfellum. Óvíst sé um áhættuþætti í þremur tilfellum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×