Viðskipti innlent

Nova kaupir Símafélagið og fer í samkeppni við bankana

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Helgi Pjetur Jóhannsson og Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova.
Helgi Pjetur Jóhannsson og Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova. nova
Fjarskiptafyrirtækið Nova stefnir á stóraukna samkeppni við viðskiptabanka hér á landi með því að bjóða upp á aukna fjármálaþjónustu í Aur appinu. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Eymundsson á Skólavörðustíg nú í morgun. Nova fjárfesti einnig í Símafélaginu á dögunum og hyggst hætta rukkun á símtölum og SMS-um.

Í appinu verða gefin út greiðslukort og verður hægt að taka lán. Lánin geta numið allt að 1 milljón króna og er það borgað út samstundis, standist viðskiptavinurinn sjálfvirkt lánshæfismat og lánareglur. Þau bera fasta óverðtryggða vexti í allt að 24 mánuði og taka vextir og lántökugjöld mið af kjörum á markaði hverju sinni.

Aur kortið verður fyrirframgreitt snertilaust MasterCard greiðslukort sem ber engin færslugjöld, ekkert stofngjald og ekkert ársgjald. Hægt verður að sækja um kortið og fylla á það í appinu. Hægt er að sækja um kort núna en þau verða afhent í byrjun janúar 2018.

Að mati forsvarsmanna Nova og Aur er um að ræða stórt skref í þá átt að fólk geti sagt skilið við bankann sinn.

Greint var frá því í Viðskiptablaðinu í dag að Nova myndi frá og með morgundeginum hætta að rukka fyrir símtöl og SMS á Íslandi og í Evrópu. Eftir breytingarnar verður einungis hægt að kaupa gagnamagn, fyrirframgreitt eða í pökkum. Símtöl og SMS fylgja síðan með gagnamagninu.

Kemur einnig fram í þeirri grein að Nova hafi náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé Símafélagsins. Ákvörðunin er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, segir þessar breytingar vera hluta af Nova X verkefninu sem fór af stað í tilefni tíu ára afmælis fjarskiptafyrirtækisins en það hóf rekstur 1. desember 2007.

Fyrirtækið hóf einnig 4,5G þjónustu á dögunum en Vísir greindi frá. Þeir sem eru því með nýjustu gerðir farsíma geta því tengst 4,5G kerfinu, en á afmörkuðum svæðum til að byrja með. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Nova byrjar með 4,5G þjónustu

Fjarskiptafyrirtækið Nova kynnti í morgun að settir hefðu verið í loftið fyrstu 4,5G sendarnir en fyrirtækið er á meðal fyrstu farsímafyrirtækja í Evrópu til þess að hefja slíka þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×