Lífið

Angelina Jolie þvertekur fyrir að hafa blekkt kambódísk börn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Angelina Jolie segist harma það að spunaleikurinn hafi verið túlkaður sem raunverulegar aðstæður.
Angelina Jolie segist harma það að spunaleikurinn hafi verið túlkaður sem raunverulegar aðstæður. Vísir/Getty
Angelina Jolie hefur þvertekið fyrir að hafa blekkt kambódísk börn sem komu í áheyrnarprufur fyrir nýja kvikmynd leikkonunnar, First They Killed My Father, sem fjallar um Rauðu khmerana í Kambódíu. BBC greinir frá.

Viðtal við Jolie birtist nýlega í tímaritinu Vanity Fair en þar ræddi hún meðal annars gerð kvikmyndarinnar sem hún leikstýrir. Í viðtalinu lýsir Jolie spunaleik sem hún og aðrir aðstandendur myndarinnar notuðust við í áheyrnarprufuferlinu.

Umræddan leik segir hún hafa farið þannig fram að börnin hafi verið beðin um að stela peningum. Þau hafi svo verið „gripin“ og þá látin skálda sögu á staðnum um ástæðu að baki stuldinum.

Þá segist Jolie hafa heimsótt fátækrahverfi og munaðarleysingjahæli í leit sinni að leikurum fyrir kvikmyndina. Hún segir framleiðendur hafa „sérstaklega verið vakandi fyrir börnum sem gengið hefðu í gegnum erfiðleika.“

Jolie hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir þessar lýsingar sínar en hún segist sjálf harma viðbrögðin.

„Ég er í uppnámi vegna þess að skrifað var um æfingu í spuna, æfingu sem var atriði í myndinni, eins og um raunverulegar aðstæður hafi verið að ræða.“

Þá sagði hún að kvikmyndinni, sem er sú fyrsta sem Jolie leikstýrir fyrir streymisveituna Netflix, væri ætlað að vekja athygli á hryllingnum sem börn stæðu frammi fyrir í stríði.

First They Killed My Father er sögð frá sjónarhorni barns og byggð á endurminningum kambódíska rithöfundarins Loung Ung sem lifði af þjóðarmorðin í Kambódíu á áttunda áratugnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×