Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, segir að hann hafi ekki ferðast til Belgíu til að sækja þar um hæli.
Puigdemont hélt fréttamannafund í Brussel fyrr í dag ásamt samstarfsfélögum sínum. Landsstjórnin á Spáni tók í gær yfir stjórn héraðsins og var héraðsstjórnin og yfirmanni lögreglunnar í Katalóníu vikið frá störfum eftir að héraðsþing Katalóníu samþykkti að lýsa yfir sjálfstæði.
Á fréttamannafundinum sagðist Puigdemont ekki vera að flýja réttvísina með því að flýja til Belgíu, heldur einungis hafa farið í þeim tilgangi að geta talað frjálslega.
Hann tilgreindi ekki hvað hann hafi ætlað sér að dvelja lengi í Belgíu, en að hann myndi snúa aftur til Katalóníu um leið og hann hafi fengið „tryggingu“ frá spænskum stjórnvöldum.
Stjórnlagadómstóll Spánar hefur ógilt sjálfstæðisyfirlýsingu leiðtoga Katalóníu og hefur Spánarstjórn boðað til kosninga til héraðsþings Katalóníu, en þær munu fara fram þann 21. desember.
Hyggst ekki að sækja um hæli í Belgíu

Tengdar fréttir

Líklegt að Puigdemont sæki um hæli í Belgíu
Fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu er flúinn til Belgíu eftir að hafa verið ákærður fyrir uppreisn af spænskum saksóknurum.

Vill ákæra Katalóna fyrir uppreisn
Þrjátíu ára fangelsisvist gæti því beðið leiðtoganna. Spænsk lög kveða á um að nú skuli dómstólar taka ósk Maza fyrir.