Skemmst er frá því að segja að Hollywood-útgáfan, sem er lausleg endurgerð á '95 myndinni, er strípuð af megni innihaldsins og einkennum þessara sagna og er matreidd sem fátt meira en dýr og tilkomumikill stílgrautur. Ef sami metnaður og fylgir útlitinu hefði verið lagður í handritið, væri útkoman hágæðamynd umhugsunarlaust, því útlitið er algjörlega meiriháttar.
Scarlett Johansson hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir að vera af röngu þjóðerni fyrir aðalhlutverkið, en í myndinni er gerð að minnsta kosti tilraun til þess að svara þeirri umræðu, þrátt fyrir að hún virki svolítið hálfbökuð. Johansson er hins vegar – ótengt þjóðerninu – hvorki góð né slæm í hlutverkinu, fyrir utan það að vera í hörkuformi og hörð í hasarsenum. Annars er það svo sem í eðli persónunnar að vera stíf og svipbrigðalaus, í ljósi þess að hún er nánast meiri vél en manneskja. Það skrifast líka á leikstjórnina og handritið hvað karakterinn nær litlu sambandi við áhorfandann.
Leikhópurinn er almennt fjölbreyttur og fínn, þó gjarnan hefði mátt gera miklu meira við flesta. Franska leikkonan Juliette Binoche setur nauðsynlegan mannúðleika í blönduna, danski leikarinn Pilou Asbæk er þokkaleg viðbót sem sérsveitarlöggan Batou og japanski snillingurinn Takeshi Kitano fær nokkur tækifæri til þess að sýna hversu mikill töffari hann getur verið, þrátt fyrir að hann líti varla út fyrir að nenna þessu.
En að skrautinu aftur, peningurinn sem hefur farið í framleiðsluna sést svo sannarlega á skjánum. Þetta er önnur mynd leikstjórans Ruperts Sanders og sást það síðast hversu gott auga hann hefur í hinni bragðlausu Snow White and the Huntsman. Heimurinn í Ghost in the Shell er allavega vel uppstilltur; stórborgin grípandi, litrík og lifandi.

Það er auðvelt að sjá að hér er efniviður sem hefur verið margunninn áður. Strax má sjá að myndin kemur út eins og útþynnt blanda af Blade Runner og The Matrix (þó svo að sú mynd hafi sótt heilmikinn innblástur í upprunalegu Ghost in the Shell teiknimyndina). Það sem aðskilur annars vegar góða, langlífa „sci-fi“ spennusögu frá tómri hasarveislu er einfaldlega framsetning á þessum þemum sem fylgja sögum um vélmenni sem velta fyrir sér mannlega þættinum eða eðli sálarinnar.
Í Ghost in the Shell endurgerðinni hafa aðstandendur aðeins dýft tánni í þunna speki sem er líkari predikun heldur en marglaga krufningu á athyglisverðum hugmyndum. Það hefði líka munað miklu ef söguþráðurinn væri aðeins hnitmiðaðri og breiðari. Hann trekkir upp litla spennu og allar tilraunir til þess að gefa sögunni einhverja sál og persónum dýpt skilar litlum árangri. Til lengdar verður ómögulegt að standa ekki á sama um fólkið - vélrænt eða ekki - þegar „kúlið“ er það helsta sem skiptir máli.
Með væntingar í lágmarki er þó ágæt afþreying í þessu og erfitt er að finna flottara þrívíddarbíó um þessar mundir. Að minnsta kosti má alltaf leita til teiknimyndarinnar ef viðkomandi er í leit að einhverju bitastæðara.
Niðurstaða: Útlitslega er myndin svo flott að hún er næstum því aðgangseyrisins virði fyrir það eitt. Verst er að efniviðurinn býður upp á svo margt meira en bara stílíseraða hasarmynd.