Innlent

Bilun og þjálfun nýrra starfsmanna olli fjögurra tíma seinkun á flugi til Akureyrar

Birgir Olgeirsson skrifar
Flugvél Flugfélags Íslands á Akureyrarflugvelli
Flugvél Flugfélags Íslands á Akureyrarflugvelli Vísir
Áætlunarferð Flugfélags Íslands frá Reykjavík til Akureyrar seinkaði um fjóra tíma í morgun svo áhöfnin gæti fengið hvíld. Ekki var mögulegt að kalla út aðra áhöfn því stór hluti flugmanna flugfélagsins er staddur erlendis að þjálfa nýja flugmenn fyrir sumarið. Þetta hefur Ríkisútvarpið eftir Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands.

Það var Ólafur Rúnar Ólafsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit, sem greindi frá málinu á Facebook eftir að hafa fengið tilkynningu um seinkunina frá Flugfélagi Íslands í gærkvöldi. Var sveitarstjórinn verulega ósáttur við vinnubrögð flugfélagsins ásamt mörgum öðrum sem tjáðu sig við stöðuuppfærslu hans á Facebook. Þar mátti sjá fólk sem missti af fundum fyrir norðan í morgun vegna þessa atviks.

Í samtali við Ríkisútvarpið segir Árni Gunnarsson að bilun hafi orðið á vél þeirra í Keflavík í gær. Vísir greindi frá því í gær að flugvél Flugfélags Íslands festist í bremsu sem olli töfum á Keflavíkurflugvelli.

Bilunin varð til þess áhöfn vélarinnar komst ekki í hvíld á þeim tíma sem gert var ráð fyrir í gærkvöldi. Ekki var hægt að kalla út aðra áhöfn vegna þjálfunar nýrra flugmanna og því var gripið til seinkunarinnar í morgun. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×