Fótbolti

Dean Martin og Halldór aðstoða Sigurð Ragnar í Kína

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dean Martin var leikmaður ÍBV undir stjórn Sigga Ragga.
Dean Martin var leikmaður ÍBV undir stjórn Sigga Ragga. vísir
Bretinn Dean Martin, þjálfari U15 ára drengjalandsliðs Íslands, og Halldór Björnsson, fyrrverandi þjálfari U17 ára landsliðsins, verða aðstoðarþjálfarar Sigurðar Ragnar Eyjólfssonar hjá kínverska landsliðinu.

Halldór staðfesti ráðningu sína við fótbolti.net í dag en samkvæmt heimildum Vísis er Dean Martin búin að samþykkja tilboð kínverska sambandsins og hefur hann fengið grænt ljós frá Knattspyrnusambandi Íslands.

Dean Martin kom hingað til lands árið 1995 og byrjaði að spila með KA en hann kom einnig við hjá ÍA og í Vestmannaeyjum á leikmannaferlinum. Hann spilaði 322 leiki og skoraði 31 mark í efstu tveimur deildum Íslandsmótsins og bikarnum.

Bretinn var ráðinn sem þjálfari í hæfileikamótun KSÍ í janúar á þessu ári og losna því sú staða sem og þjálfarastaða U15 ára landsliðsins þegar að hann flytur til Kína.

Halldór Björnsson er frá Selfossi en hann var einnig í hæfileikamótun KSÍ samhliða því að þjálfa U17 ára landsliðið. Hann var í þjálfarateymi A-landsliðs kvenna sem Sigurður Ragnar stýrði í átta liða úrslitin á EM 2013 í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×